Ljósaganga og átak gegn kynbundnu ofbeldi

Harpan verður lýst með appelsínugulum lit til að styðja við átakið.

Ljósaganga UN Women í dag markar upphaf 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi sem í ár beinist sérstaklega gegn kynbundnu ofbeldi á vinnustöðum.

Gangan hefst klukkan 17 á Arnarhóli þar sem Drífa Snædal, forseti ASÍ, flytur barátturæðu við styttuna af Ingólfi Arnarsyni. Að henni lokinni verður gengið suður Lækjargötu, upp Amtmannsstíg og að Bríetartorgi. Þar mun Skólakór Kársnes flytja nokkur lög auk þess sem boðið verður upp á heitt kakó til að ylja göngufólki. Nánari upplýsingar um gönguna má finna á Facebook-viðburði.

Á sama tíma, í dag klukkan 17, verður ljósaganga á Akureyri, þar sem gengið verður frá Menningarhúsinu Hofi að Akureyrarkirkju þar sem flutt verða nokkur stutt erindi.

Harpan verður lýst upp í appelsínugulum lit í tilefni dagsins. Liturinn er táknrænn fyrir von og bjarta framtíð án ofbeldis fyrir konur og stúlkur um allan heim.

BSRB hvetur sem flesta til að taka þátt í ljósagöngunni og styðja átak gegn kynbundnu ofbeldi á vinnustöðum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?