Lögreglumenn samþykkja kjarasamning við ríkið

Afar góð þátttaka var í kosningu um kjarasamning lögreglumanna.

Lögreglumenn hafa nú samþykkt kjarasamning Landssambands lögreglumanna við ríkið með rúmlega 59 prósentum greiddra atkvæða. Þar með hafa öll aðildarfélög BSRB náð kjarasamningi við stærstu viðsemjendur, ríki og sveitarfélög.

Eins og fram kemur í frétt á vef Landssambands lögreglumanna var kjarasamningur landssambandsins undirritaður þann 16. september og lauk atkvæðagreiðslu um samninginn klukkan 10 í morgun. Þátttaka í kosningunni var afar góð. Alls voru 719 á kjörskrá og 629 greiddu atkvæði, eða um 87,5 prósent. Atkvæði fóru þannig að rúmlega 59 prósent samþykktu samninginn en rúmlega 40 prósent greiddu atkvæði gegn honum. Um 0,5 prósent atkvæða voru auð.

BSRB óskar Landssambandi lögreglumanna til hamingju með kjarasamninginn!


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?