Lokaávarp formanns BSRB á 45. þingi bandalagsins

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

Kæru félagar,

Þá er komið að lokum 45. þings BSRB. Þrátt fyrir stífa dagskrá hafa dagarnir liðið hratt og gleðin og vinnusemin verið allsráðandi.

Saman höfum við mótað skýra stefnu BSRB til þriggja ára, átt öfluga umræðu og unnið fjölda sterkra ályktana. Þessi vinna verður mikilvægt leiðarljós fyrir verkefnin framundan.

Við ætlum að tryggja að launafólk geti lifað af á dagvinnulaunum, stytta vinnuvikuna og berjast fyrir bættu starfsumhverfi okkar félagsmanna. Við ætlum líka að jafna launakjör milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins, tryggja áfram launaþróunartryggingu og bæta stöðu vaktavinnufólks svo eitthvað sé nefnt.

Við þurfum að efla velferðarkerfið og halda áfram markvissri baráttu fyrir því að velferðin eigi að vera gjaldfrjáls. Þá munum við fylgja því eftir af festu að stjórnvöld ráðist í átak til að allir hafi aðgang að húsnæði á viðráðanlegum kjörum og tryggi að skattbreytingar og stuðningur stjórnvalda gagnist lág- og millitekjuhópum.

Eftir sem áður verður það hlutverk BSRB að vinna stöðugt að því að byggja upp betra samfélag. Þar verðum við að byggja á jöfnuði og félagslegu réttlæti.

Við höfum líka dansað, talað um grænmeti og í einum málefnahópnum var einhver jarðsettur – sem er öllu verra en að vera jaðarsettur, sem var upphaflega meiningin. Það er nefnilega líka gaman á þingi BSRB þó málefnin séu auðvitað alvarleg.

Undirstaða alls starfs BSRB

Ég vil þakka ykkur öllum kærlega fyrir ykkar framlag á þessu þingi. Það er ekki sjálfgefið að fólk geti tekið sér þrjá daga frá vinnu og fjölskyldu til að gefa af sér á þingi BSRB, sér í lagi þeir sem eiga börn í vetrarfríi! Framlag ykkar er undirstaða alls okkar starfs. Þið tryggið að stefna BSRB endurspegli sjónarmið félagsmanna og fjölbreytni þeirra. Það er ómetanlegt framlag.

Ég vil fyrir hönd okkar allra þakka þingforsetunum fyrir röggsama og góða stjórnun og riturunum vil ég jafnframt þakka kærlega fyrir þeirra störf. Mig langar að biðja ritarana, Jakobínu Rut og Þórdísi að koma hér upp. Ég ætla að færa þeim smá þakklætisvott frá þingfulltrúum. Gefum þeim gott klapp!

Nú langar mig að fá forsetana okkar hingað líka og gefa þeim þakklætisvott frá BSRB. Það eru Þórveig, Ingunn Hafdís og Jón Ingi. Kærar þakkir fyrir að halda svona vel utan um þingið. Gefum þeim gott klapp!

Þá vil ég þakka starfsfólki BSRB og fráfarandi formanni fyrir alla þá vinnu sem þau lögðu í undirbúning þingsins og hér á þinginu sjálfu. Mögulega stytti ég vinnuvikuna ykkar – en bara í næstu viku - sem þakklætisvott. Elín Björg er sjálf búin að stytta sína vinnuviku – ekki í 36 stundir, ekki í 32 stundir heldur alla leið i í núll stundir!

Ég vil biðja Elínu Björgu um að koma hingað upp til mín og taka á móti þessum blómvendi frá okkur öllum. Takk enn og aftur fyrir allt.

Framlag sem nýtist inn í framtíðina

Það er með þakklæti og gleði í huga sem ég slít 45. þingi BSRB. Þakklæti fyrir fyrirmyndarvinnubrögð, og fyrir góða og mikla vinnu. Ykkar framlag mun nýtast okkur vel fyrir störfin inn í framtíðina. Takk fyrir að gefa ykkur tíma og takk fyrir að vera með okkur. Takk fyrir að leyfa okkur að heyra skoðanir ykkar og fyrir að gefa okkur það mikla starf sem þið hafið unnið.

Nýkjörinni stjórn BSRB óska ég til hamingju um leið og ég þakka fráfarandi stjórn fyrir störf sín.

Ég vona að allir hverfi nú heim glaðir í hjarta, með baráttuanda í brjósti og segi öllum sem vilja hlusta – og sérstaklega þeim sem ekki vilja hlusta – frá stefnumálum og sýn BSRB.

Ég óska ykkur öllum góðrar heimferðar og slít hér með 45. þingi BSRB.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?