Lýðræði, norrænt samstarf og réttlát umskipti til umfjöllunar á 50 ára afmælisþingi NFS

Fulltrúar úr verkalýðshreyfingunni á Norðurlöndunum komu saman á 50 ára afmælisþingi NFS Norræna verkalýðssambandsins í Osló dagana 27. – 29. september. Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur bandalagsins sóttu þingið fyrir hönd BSRB.

Meðal þess sem var í brennidepli var uppgangur hægri öfgaafla í Evrópu, ógn þess við lýðræðið og mikilvægi verkalýðshreyfingarinnar fyrir virkt lýðræði. Þá var fjallað um norrænt samstarf á tímum óvissu og stríðið í Úkraínu. Einnig voru réttlát umskipti og norrænt samstarf á evrópskum vettvangi til umræðu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði þingið á skjá þar sem hún tilkynnti að undir formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á næsta ári, myndi ríkisstjórnin bjóða til fundar aðilum vinnumarkaðarins á Norðurlöndum til að ræða réttlát umskipti.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB hélt erindi þar sem hún fjallaði m.a. um hversu langan tíma það tekur gjarnan á Íslandi að innleiða tilskipanir Evrópusambandsins og sérstaklega þær sem okkur ber ekki skylda til að innleiða. Sagði Sonja að íslensku verkalýðshreyfinguna á stundum hafa haft meiri áhrif á innihald tilskipana sem varða vinnumarkaðinn með samstarfi í norræna verkalýðssambandinu en í gegnum íslensk stjórnvöld. Þá hvatti hún til meira frumkvæðis af hálfu norrænu verkalýðssambandsins á evrópskum vettvangi. Reynslan sýndi að það skilar oftast góðum árangri.

Þingið sendi frá sameiginlega yfirlýsingu þar sem lýst er áhyggjum af þeim ógnum sem steðja að verkalýðsfélögum og aðför ríkisstjórna og atvinnurekenda að lífskjörum launafólks í Evrópu.

Yfirlýsinguna má lesa hér


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?