Magnús Már nýr framkvæmdastjóri BSRB

Magnús Már Guðmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri BSRB.

Magnús Már Guðmundsson hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri BSRB. Hann tekur við starfinu af Helgu Jónsdóttur, sem lét af störfum um áramótin. Magnús hefur verið borgarfulltrúi og varaborgarfulltrúi frá árinu 2014 en mun óska eftir leyfi frá störfum á fundi borgarstjórnar í næstu viku.

„Það eru spennandi tímar hjá BSRB eins og annars staðar í verkalýðshreyfingunni og ég hlakka til að starfa með öflugu fólki innan bandalagsins og í aðildarfélögum þess,“ segir Magnús Már. „Barátta verkalýðsfélaga er barátta fyrir bættu samfélagi sem rímar vel við þær hugsjónir sem ég hef beitt mér fyrir á öðrum vettvangi á undanförnum árum.“

Magnús er með B.A. próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands með stjórnmálafræði sem aukagrein. Hann er með kennsluréttindi sem grunn- og framhaldsskólakennari og hóf nýlega meistaranám í opinberri stjórnsýslu.

Magnús starfaði með fötluðum börnum og ungmennum hjá Íþrótta- og tómstundasviði Reykjavíkurborgar með námi á árunum 2002 til 2008. Hann var fréttamaður á fréttastofu Vísis.is og Bylgjunnar að námi loknu en hóf störf sem kennari í Menntaskólanum í Kópavogi árið 2011. Hann var kjörinn varaborgarfulltrúi í Reykjavíkurborg árið 2014, varð tímabundið borgarfulltrúi árið 2016, en hefur verið varaborgarfulltrúi aftur frá árinu 2017.

„Það er mikill fengur fyrir okkur hjá BSRB að fá Magnús Má til liðs við okkur,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. „Magnús kemur með mikla reynslu með sér til starfa, til að mynda hefur hann stýrt tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg síðustu árin og þekkir því vel til þessa stóra stefnumáls bandalagsins.“


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?