Málþing BSRB um kulnun og álag í starfi

Sagt verður frá áður óbirtum rannsóknum um álag og kulnun.

BSRB heldur málþing um starfsumhverfi opinberra starfsmanna með áherslu á kulnun og álag í starfi milli klukkan 9 og 12 föstudaginn 15. febrúar. Málþingið fer fram í Sal 3 á Reykjavík Natura við Nauthólsveg (sjá kort).

Fyrirlesari á málþinginu verður Ingibjörg Jónsdóttir, forstöðumaður Institute of Stress Medicine í Svíþjóð og prófessor við Gautaborgarháskóla. Hún mun ræða um streituvalda í atvinnulífinu með áherslu á skilyrði á vinnustað, vinnuhópa og einstaklinga. Hún mun einnig fjalla um orsakavalda og einkenni kulnunar ásamt úrræðum á sviði forvarna og meðferðar. Í fyrirlestrunum mun Ingibjörg fara yfir áður óbirtar niðurstöður rannsókna meðal opinberra starfsmanna í Svíþjóð, meðal annars um langtímaáhrif kulnunar á einstaklinginn.

Þá mun Hljómsveitin Eva velta fyrir sér kulnun í tali og tónum og spyrja forvitnilegra spurninga. Afhverju er svona erfitt að slappa af? Er best fyrir heiminn að við séum öll dugleg? Hvaðan kemur dugnaðurinn? Er allt í lagi að leggja sig á daginn? Eigum við rétt á að vera stundum löt?

 

Dagskrá málþingsins:
  • 9:00-9:10   Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, setur málþingið
  • 9:10-10:15   Streituvaldar í atvinnulífinu
  • 10:15-10:30   Kaffihlé
  • 10:30-11:00   Reynslusaga um kulnun – Hljómsveitin Eva
  • 11:00-12:00   Orsakavaldar kulnunar og úrræði á sviði forvarna og meðferðar

Fundarstjóri verður Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB.

Það er óþarfi að skrá þátttöku en það væri hjálplegt til að meta fjölda þátttakenda að skrá sig til leiks á Facebook-viðburði málþingsins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?