Mannauðurinn skiptir mestu máli

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna leggur mikla áherslu á sálræna aðstoð við viðbragðsaðila í neyðarþjónustu. Verulegur misbrestur hefur verið á því að gætt sé að líðan þeirra sem koma oft fyrstir að hræðilegum slysum og taka þátt í verstu stundum þeirra sem þeir koma til aðstoðar.

„Mannauðurinn skiptir mestu máli og andlegi þátturinn hefur verið mjög vanræktur fram að þessu,“ segir Stefán Pétursson, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í helgarviðtali Fréttablaðsins um síðustu helgi.

„Álagið hefur valdið miklum skaða, ég hef horft upp á félaga mína brenna út í starfi og hætta vegna tilfinningalegs álags. Við höfum líka misst fólk. Því miður. Fólk sér enga leið út. Hjónabönd hafa líka splundrast og fjölskyldur leyst upp. Það er lífsnauðsynlegt að takast á við þetta,“ segir Stefán við Fréttablaðið.

Landssambandið hefur undanfarið verið í átaki til að minna á þennan mikilvæga þátt. Haldin var vegleg ráðstefna þar sem fjallað var um ýmsar hliðar málsins. Þá er Landssambandið er að vinna í því að komast í samstarf við Háskólann í Reykjavík sem vinnur nú að því að setja á fót þekkingarsetur varðandi sálfræðiþjónustu við viðbragðsaðila.

Hægt er að lesa viðtalið við formann Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í heild sinni á Vísi.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?