Mikið traust slökkviliðsins

Um 98 prósent þátttakenda í nýrri könnun Capacent Gallup segjast bera mikið traust til slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Traust til þeirra mælist langt umfram það sem þekkist hjá helstu stofnunum samfélagsins. Þá segist svipað hlutfall þátttakenda telja Eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) mikilvægt.

Capacent gerði könnunina fyrir Eldvarnabandalagið og LSS í september og október síðastliðnum. Þátttakendur voru 1.449 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, og var þátttökuhlutfallið 58,9 prósent. Um 65 prósent segjast bera mjög mikið traust til slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna en rúmlega 33 prósent frekar mikið. Samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup í febrúar 2014 komast Landhelgisgæslan (89 prósent) og lögreglan (83 prósent) næst þessum niðurstöðum en aðrar stofnanir njóta mun minna trausts.

Sverrir Björn Björnsson, formaður LSS, segist fagna niðurstöðunum enda sé afar brýnt að gagnkvæmt traust ríki í þeim erfiðu og viðkvæmu verkefnum sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn vinni fyrir almenning í landinu.

„Við tökum þessum niðurstöðum af mikilli auðmýkt og þakklæti og gerum okkur grein fyrir að við þurfum að halda áfram að vanda okkur til að halda þessu góða sambandi við þjóðina. Mér þykir jafnframt afar ánægjulegt að yfirgnæfandi fjöldi þátttakenda skuli telja Eldvarnaátakið mikilvægt. Við lítum á það sem afar mikilvægt verkefni að fræða fólk um eldvarnir til að fyrirbyggja eldsvoða og mann- og eignatjón vegna þeirra. Þetta á ekki síst brýnt erindi við fólk nú fyrir hátíðirnar,“ segir Sverrir.

Eldvarnaátakið hefst fimmtudaginn 20. nóvember. Þá hefja slökkviliðsmenn um allt land heimsóknir í grunnskólana til að fræða nemendur í 3. bekk og fjölskyldur þeirra um eldvarnir og mikilvægi þeirra.

Helstu styrktaraðilar Eldvarnaátaksins eru Mannvirkjastofnun, 112, Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands, TM og slökkviliðin í landinu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?