Mikill meirihluti á leið í 36 stunda vinnuviku

Vinnuvikan er komin niður í 36 stundir hjá fjölda starfsmanna ríkis og sveitarfélaga.

Mikill meirihluti stofnana ríkisins og vinnustaða hjá Reykjavíkurborg hafa ákveðið að stytta vinnuvikuna úr 40 stundum í 36 hjá dagvinnufólki. Enn vantar nokkuð upp á að tilkynningar um útfærslu hafi borist frá vinnustöðum hjá hinu opinbera þrátt fyrir að styttingin hafi tekið gildi um áramót.

Alls hafa átta ráðuneyti staðfest tilkynningar frá samtals 83 ríkisstofnunum um styttingu vinnuvikunnar fyrir fólk í dagvinnu. Fram kemur í þeim tilkynningum að um 75 til 80 prósent stofnana eru að stytta vinnutímann í 36 stunda vinnuviku og flestar hinna í einhverja blandaða leið eða tímabundna skemmri styttingu. Mjög lágt hlutfall mun stytta vinnuvikuna um 65 mínútur á viku.

Þó svo BSRB hafi aðeins borist 83 staðfestar tilkynningar frá ráðuneytunum hefur bandalagið verið upplýst um að nær 150 tilkynningar hafi borist ráðuneytunum, en ráðuneytin eiga eftir að yfirfara og staðfesta talsverðan fjölda tilkynninga.

Nær allir vinnustaðir borgarinnar í 36 stundir

Hjá Reykjavíkurborg hafa nær allir vinnustaðir samþykkt að stytta vinnuvikuna í 36 stundir. Alls hafa 160 vinnustaðir samþykkt að fara þessa leið en 14 fara aðra leið. Í einu tilviki var samþykkt að stytta vinnuvikuna um 65 mínútur á viku, og hjá einum var tilkynnt um árangurslaust samtal. Hjá hinum 12 var farið blandaða leið með styttingu í ýmist 37 eða 38 stundir á viku.

Vinnan hjá Reykjavíkurborg hefur gengið vel, enda mikil þekking á verkefninu þar eftir að borgin vann viðamikið tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar í samstarfi við BSRB.

Vinnan gengur hægar hjá öðrum sveitarfélögum. Staðfestingar hafa borist frá vinnustöðum hjá 20 sveitarfélögum sem eru innan Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hjá tveimur sveitarfélögum eru flestir eða allir vinnustaðir að stytta vinnutímann í 36 stundir á viku. Hjá sjö þeirra eru flestir að stytta í 37-38 stundir þó oft sé útfærslan mjög mismunandi milli vinnustaða og jafnvel hópa innan sama vinnustaðar. Hjá átta sveitarfélögum eru flestir vinnustaðir að stytta um 65 mínútur á viku en nokkrir þó með einhverja styttingu umfram það, en hjá þremur sveitarfélögum eru allir vinnustaðir að stytta um 65 mínútur á viku. Hjá öllum sveitarfélögunum er um að ræða samkomulag til nokkurra mánaða.

Verkefnið framundan er því að meta samtölin og hvort þau hafi verið í samræmi við það sem lagt er upp með í kjarasamningi. Sömuleiðis að tryggja að starfsfólk hafi haft tækifæri til samtals um hvernig megi endurskipuleggja vinnudaginn til að stytta megi vinnuvikuna, eins og kveðið er á um í kjarasamningi.

Þau sveitarfélög sem skilað hafa inn tilkynningum eru af mismunandi stærð. Stærstu sveitarfélögin sem hafa sent inn tilkynningar eru Hafnarfjörður, Akureyri og Garðabær með yfir 10 þúsund íbúa hvert, flest hinna eru með íbúafjölda á bilinu eitt til fimm þúsund manns og fjögur smærri sveitarfélög hafa sent inn tilkynningu.

Röðin að koma að vaktavinnufólki

BSRB mun áfram fylgja fast eftir ákvæðum kjarasamninga um styttingu vinnuvikunnar. Þá er vinna í fullum gangi við að útfæra styttingu vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki hjá ríki, Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum, en hjá vaktavinnufólki tekur styttingin gildi þann 1. maí næstkomandi.

Nánari upplýsingar um styttinguna má finna á styttri.is og betrivinnutimi.is.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?