Mikill munur á launamun eftir landssvæðum

Kynbundinn launamunur á landinu öllu mældist 11,4% í nýrri kjarakönnun sem Capacent framkvæmdi fyrir BSRB. Þegar kynbundni launamunurinn er skoðaður eftir landssvæðum sést hann er ansi breytilegur á milli staða.

Ef höfuðborgarsvæðið er borið saman við landsbyggðakjördæmin sést að óútskýrður kynbundinn launamunur á höfuðborgarsvæðinu er 10,4% á meðan landsbyggðakjördæmin mælast saman með 13,6% kynbundinn launamun.

Kynbundinn launamunur þeirra sem búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu fer frá því að vera 12,1% á árinu 2012 niður í 10,4% nú. Kynbundinn launamunur á Vestfjörðum og Vesturlandi dregst lítillega saman á milli ára, var 17,3% en er nú 16,6%.

Mestu breytingar á kynbundnum launamun eftir landssvæðum á milli ára verða hins vegar á Suðurnesjum/Suðurlandi og Austur/Norðurlandi. Launamunurinn eykst á Suðurlandi og Suðurnesjum, fer frá 18% og upp í 20% á meðan jákvæð þróun verður á Austur- og Norðurlandi. Þar fer kynbundinn launamunur úr 11,6% í fyrra og niður í 5,7% árið 2013.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?