Minni vinna og allir vinna

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB.

Ef við ættum að takast á við það verkefni í dag að ákveða hvernig fyrirkomulag vinnu eigi að vera eftir hálfa öld, árið 2067, er augljóst að hvað sem við ákveðum mun ekki standast tímans tönn. Það er engin leið að sjá fyrir þá þróun sem verður á vinnumarkaði á næstu 50 árum. Það besta sem við gætum gert væri að miða út frá stöðunni í dag og aðlaga okkur að breytingum.

Í því ljósi getum við horft á nærri hálfrar aldar fyrirkomulags 40 stunda vinnuviku. Alveg eins og við í dag eigum engan möguleika á að sjá fyrir stöðuna 2067 gátu þingmenn og aðrir sem rökræddu kosti þess að stytta vinnuvikuna árið 1971 ekki gert sér í hugarlund þær öru tæknibreytingar sem áttu eftir að verða og áhrif þeirra á vinnuumhverfið. Hins vegar á umræðan á þeim tíma og í dag að hluta til það sammerkt að sumir sjá henni allt til foráttu. Þá voru til dæmis ýmsir þeirrar skoðunar að enginn ávinningur væri af því að hætta að vinna á laugardögum. Þær skoðanir hafa ekki elst vel.

Breytingarnar á síðustu fimm áratugum hafa verið gríðarmiklar og engin ástæða til að ætla að þær verði minni á næstu fimmtíu árum. Auknar tækniframfarir kunna til að mynda að leiða til verulegrar aukningar á framleiðni sem gæti haft umtalsverð áhrif á bæði fjölda og gæði starfa. Því er mikilvægt að við sem samfélag hefjum undirbúning fyrir þessar breytingar til að tryggja að launafólk njóti góðs af þessum breytingum, einkum og sér í lagi í gegnum jafnari dreifingu vinnutíma starfsfólks.

Styttri vinnuvika borgar sig

Eitt af því sem við verðum að taka á dagskrá er stytting vinnuvikunnar. Á tímum þar sem streita og álag eru alvarleg vandamál væri fásinna að hafna alfarið umræðu um þetta mikilvæga hagsmunamál launafólks.

Erlendar rannsóknir sýna fram á kosti þess að stytta vinnuvikuna án launaskerðingar. Með því að stytta vinnuvikuna má þannig stuðla að auknu öryggi og betri heilsu launafólks, fjölskylduvænna samfélagi og aukins jafnréttis.

Þegar dregur úr álagi eykst starfsánægja, það dregur úr veikindum og launafólk hefur meiri tíma til að sinna fjölskyldu og áhugamálum. Á sama tíma sýna rannsóknir að afköstin dragast ekki saman þó vinnutíminn styttist og í sumum tilfellum aukast þau.

Við viljum eflaust flest gera samfélagið fjölskylduvænna. Með styttri vinnuviku geta foreldrar stytt þann tíma sem börn eyða á leikskólum og frístundaheimilum. Við getum fengið meiri tíma til að hvílast, hitta vini og ættingja, hreyfa okkur og sinna áhugamálum.

Stytting vinnuvikunnar er einnig mikilvægt jafnréttismál. Konur vinna almennt minna en karlar og eru líklegri til að velja hlutastörf. Meginástæðan er vegna fjölskylduábyrgðar en þessi áhrif ólaunuðu starfanna hafa veruleg áhrif á tekjumöguleika kvenna yfir starfsævina og ellilífeyrisgreiðslur. Stytting vinnuvikunnar getur stuðlað að breytingum á þessu mynstri þar sem konur leita þá síður í hlutastörf og karlar fá aukna möguleika til að samþætta fjölskyldu og atvinnulíf og þannig stuðla að jafnari ábyrgð á ólaunuðu störfunum.

Tvö tilraunaverkefni í gangi

BSRB hefur lengi beitt sér fyrir styttingu vinnuvikunnar. Stefna bandalagsins er að vinnuvikan verði 36 stundir en ekki 40 stundir eins og hún er nú. Ákvörðun um styttingu vinnutíma verður þó ekki tekin nema að vandlega athuguðu máli. Þess vegna hefur BSRB tekið þátt í tveimur tilraunaverkefnum á undanförnum árum.

Tilraunaverkefni BSRB og Reykjavíkurborgar fór af stað árið 2015 en markmiðið með tilrauninni hefur frá upphafi verið að kanna áhrifin á heilsu, vellíðan, starfsanda og þjónustuna, bæði með tilliti til gæða og hagkvæmni. Fjölbreyttar mælingar eru framkvæmdar út frá annars vegar hagsmunum vinnustaðanna og hins vegar starfsmanna. Í ljós hefur komið að hagsmunir vinnustaðanna og starfsmannanna fara afar vel saman þegar kemur að styttingu vinnuvikunnar. Niðurstöðurnar eru svo jákvæðar að nýlega ákveðið að framlengja tilraunaverkefnið og útvíkka þannig að það nær nú til um 2.200 starfamanna, um fjórðungs allra sem starfa hjá borginni.

Reynsla borgarinnar af styttingu vinnuvikunnar rímar vel við alþjóðlegar rannsóknir. Starfsánægja hefur aukist, það hefur dregið úr andlegum og líkamlegum einkennum álags, veikindi hafa dregist saman en vinnuframlag haldist óbreytt þrátt fyrir styttri vinnutíma. Þá hefur samvinna starfsmanna aukist sem stuðlar að góðri vinnustaðamenningu.

Rétt er að taka fram að enginn kostnaður verður af þessari styttingu, enda afkasta starfsmenn því sama á styttri vinnutíma. Ef eitthvað er ætti að fylgja fordæmi Svía og skoða hversu mikið vinnustaðirnir spara vegna minni skammtímaveikinda og minni starfsmannaveltu.

Tilraunaverkefni BSRB og ríkisins er styttra á veg komið en það verður afar áhugavert að sjá niðurstöður úr því verkefni þegar það er komið lengra.

Framsýnir stjórnendur stytta vinnuvikuna

Við horfum einnig til góðs árangurs einkaaðila af því að stytta vinnutíma sinna starfsmanna. Forsvarsmenn Hugsmiðjunnar ákváðu að ganga mun lengra en BSRB leggur til og styttu vinnutíma starfsmanna úr 40 stundum í 30. Eftir tvö ár eru bæði eigendur og starfsmenn í skýjunum með styttri vinnutíma.

Þrátt fyrir svartsýnar spár afkastar starfsfólkið ekki einungis jafn miklu á sex stunda vinnudegi og það gerði áður á átta stundum heldur hefur framleiðni einnig aukist talsvert og tekjur fyrirtækisins þar með. Þá hefur starfsánægja aukist og veikindi minnkað verulega. Önnur fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög eru ýmist búin að ákveða að feta þessa slóð, eða eru í startholunum.

Það vekur athygli að samtök atvinnurekenda sjái ekki þau tækifæri sem felast í þessari samfélagsbreytingu. Nærri hálfrar aldar gamalt skipulag vinnutíma á ekki að vera eitthvað náttúrulögmál sem ekki má breyta. Ef hægt er að halda óbreyttum afköstum en fá ánægðara starfsfólk sem er sjaldnar veikt, segir það sig ekki sjálft að það er jákvætt fyrir atvinnurekendur?

Ánægt starfsfólk lykillinn

Hjá Reykjavíkurborg voru ýmsar efasemdarraddir í garð tilraunaverkefnisins innan vinnustaða áður en það hófst. Þær raddir þögnuðu um leið og tilraunin hófst enda reynslan góð. Þrátt fyrir augljósa kosti virðist vera einhver tregða hjá samtökum atvinnurekenda fyrir því að skoða þessa leið. Sem betur fer bíða framsýnir stjórnendur í öflugum fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum ekki eftir því. Þeir vita sem er að ánægt starfsfólk er lykillinn að árangri.

Titillinn á samantekt Hugsmiðjunnar á því hvaða áhrif það hefur haft að stytta vinnuvikuna í 30 stundir síðustu tvö ár segir allt sem segja þarf: „Minni vinna og allir vinna.“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?