Morgunverðarfundur um TiSA samningsviðræður

BSRB stóð fyrir opnum morgunverðarfundi um TiSA samningsviðræðurnar í morgun. Bergþór Magnússon lögfræðingur á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins var með erindi þar sem hann skýrði frá efni og gangi samningsviðræðnanna. Hann hefur um árabil haft aðkomu að gerð viðskiptasamninga f.h. Íslands og sem lögfræðingur á skrifstofu EFTA árin 2002-2007.

Í máli hans kom meðal annars fram að um sé að ræða samningaviðræður 50 ríkja sem eiga aðild að WTO um aukið frelsi í viðskiptum með þjónustu milli ríkja samningsaðila. Aðdraganda TiSA sé að rekja til þess að mörg ríki vildu uppfæra GATS-samning WTO frá 1995 en ekki hafi náðst samkomulag um það innan WTO. Því hafi hluti ríkja WTO ákveðið að hefja viðræður utan þeirrar stofnunar. Efni TiSA viðræðnanna er svo tvíþætt, annars vegar skuldbindingar einstakra ríkja um aðgang erlendra aðila að innlendum markaði og um jafnræði milli innlendra og erlendra aðila (skuldbindingaskrár) og hins vegar almenn ákvæði samningstexta (meginmál samnings auk viðauka við samninginn).

Skuldbindingarskrárnar varða skuldbindingar ríkja um markaðsaðgang erlendra þjónustuveitenda og jafnræði meðal innlendra og erlendra þjónustuveitenda. Varðandi markaðsaðgengi er það viðkomandi ríki ákveður sjálft að hvaða marki það veitir erlendum aðilum aðgang að eigin markaði. Að sögn Bergþórs er í tilboði Íslands varðandi skuldbindingarskránna byggt á þeim skuldbindingum sem Ísland hefur nú þegar undirgengist skv. GATS samningnum og feli að langmestu leyti í sér sömu skuldbindingar. Þá sé byggt á því að núverandi laga- og reglugerðarumhverfi taki ekki neinum breytingum né að breytingar verði á núverandi viðskiptaumhverfi. Þá er sérstaklega undanskilið hvers kyns skuldbindingar vegna t.d. heilbrigðistengdrar þjónustu, félagslegrar þjónustu, menntunarþjónustu og útvarps- og sjónvarpsþjónustu. Opinber þjónusta sé jafnframt undanskilið frá bæði GATS og TiSA.

Fundurinn var vel sóttur og voru miklar umræður um málið. Fyrir áhugasama má benda á að frekari upplýsingar um málið má finna hér á vef utanríkisráðuneytisins.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?