Móta úthlutunarreglur fyrir Bjarg íbúðafélag

Bjarg hefur þegar fengið vilyrði fyrir lóðum fyrir alls 1.225 íbúðir.

Mikill gangur er á starfsemi Bjargs íbúðafélag þessa dagana. Unnið er að skipulagi á reitum og hönnun á húsnæði á þeim reitum þar sem skipulagsvinnu er lokið. Nú styttist í að hægt verði að opnað verði fyrir umsóknir og úthlutunarreglur að verða til.

Fjallað var um stöðuna á verkefnum Bjargs íbúðafélag á vinnufundi fulltrúaráðs félagsins í síðust viku. Þar var einnig unnið að því að móta reglur fyrir úthlutun á íbúðum. Til stendur að opna fyrir umsóknir á fyrri hluta næsta árs og verður það auglýst vel þegar þar að kemur.

Til að ekki verði pressa á fólk að skila inn umsóknum of hratt stendur til að safna saman umsóknum sem berast fyrstu vikurnar og draga um röð þeirra á biðlista. Eftir það fara umsóknir sem berast á biðlistann í þeirri röð sem þær berast. Nánar verður fjallað um úthlutunarreglurnar hér á vef BSRB þegar þær hafa verið samþykktar.

Eins og Fréttablaðið greindi frá á dögunum er vinna við skipulagsmál í fullum gangi á lóð sem Hafnarfjarðarbær hefur úthlutað Bjargi í Hraunskarði í Hafnarfirði. Þar var upphaflega gert ráð fyrir 32 íbúðum í sex litlum fjölbýlum. Bjarg íbúðafélag hefur nú óskað eftir því að fá að byggja 60 íbúðir í tveimur húsum á reitnum. Markmiðið með því er að ná aukinni hagkvæmni og lækka verðið á hverri íbúð.

Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignastofnun stofnuð af BSRB og Alþýðusambandi Íslands. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði, félagsmönnum í BSRB og ASÍ, aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Nánari upplýsingar um félagið má finna á vef þess, bjargibudafelag.is.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?