Mun betra að leigja hjá óhagnaðardrifnum félögum

Bjarg íbúðafélag afhenti nýlega 500. íbúð félagsins.

Leigjendur hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum greiða almennt lægra hlutfall ráðstöfunartekna í húsaleigu og eru ánægðari með húsnæði sitt en þeir sem leigja hjá einkareknum leigufélögum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Meira en fjórðungur leigjenda, um 27 prósent, greiða meira en helminginn af ráðstöfunartekjum sínum í húsaleigu og um tíundi hver leigjandi greiðir meira en 70 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í leigu að því er fram kemur í skýrslunni.

Þegar aðeins er litið til þeirra sem leigja af einkareknu leigufélagi er staðan mun verri. Um 44 prósent greiða helminginn af ráðstöfunartekjum eða meira, þar af segjast um 13 prósent greiða 70 prósent eða meira af ráðstöfunartekjum í leigu.

Til samanburðar má nefna að um 26 prósent þeirra sem leigja hjá óhagnaðardrifnu leigufélagi greiða meira en helming ráðstöfunartekna í leigu og um 8 prósent segjast greiða 70 prósent eða meira.

BSRB hefur kallað eftir því að aukið fjármagn verði sett í mótframlög fyrir óhagnaðardrifin leigufélög. Eitt þeirra er Bjarg íbúðafélag, sem stofnað var af BSRB og ASÍ árið 2016. Félagið hefur það hlutverk að byggja upp og leigja tekjulægstu félagsmönnum aðildarfélaga þessara heildarsamtaka langtíma húsnæði á hagstæðu verði. Uppbygging félagsins hefur gengið vonum framar og nýverið fékk 500. leigjandi félagsins íbúð sína afhenta.

Þeir sem leigja af óhagnaðardrifnu leigufélagi eru almennt mun ánægðari með íbúðarhúsnæði sitt en aðrir. Þannig segjast einungis um fimm prósent leigjenda hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum óánægð með húsnæði sitt, samanborið við 24 prósent leigjenda hjá einkareknum leigufélögum.

Samkvæmt skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar mælist húsnæðisöryggi mest hjá þeim sem leigja af óhagnaðardrifnu leigufélagi, örlítið hærra en hjá þeim sem leigja af ættingjum og vinum og mun hærra en hjá þeim sem leigja af einkareknum leigufélögum eða einstaklingum á almennum markaði.

Hægt er að kynna sér skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hér.

Nánari upplýsingar um Bjarg íbúðafélag má finna á vef félagsins, þar sem einnig má sækja um íbúðir.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?