Námskeið um áreitni og persónuvernd í byrjun árs

Námskeið Forystufræðslu ASÍ og BSRB eru ætluð stjórnar- og starfsfólki stéttarfélaga.

Boðið verður upp á námskeið um kynbundna og kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, persónuvernd launafólks og fleira á námskeiðum hjá Starfsmennt nú í upphafi árs. Námskeiðin eru hluti af Forystufræðslu ASÍ og BSRB og eru ætluð fulltrúum í stjórnum stéttarfélaga og starfsmönnum félaganna.

Það er ærið tilefni til að fjalla um kynbundna og kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum nú þegar #metoo byltingin hefur varpað ljósi á ástandið á vinnumarkaði almennt og hjá stéttarfélögunum sjálfum. Þannig hefur hópur kvenna innan verkalýðshreyfingarinnar hvatt forystu allra heildarsamtaka launafólks til að bregðast við umræðum um málið, eins og fjallað var um í lok síðasta árs. Námskeiðið verður haldið þann 30. janúar.

Miklar breytingar eru framundan í persónuverndarmálum enda hefur tækniþróun undanfarinna ára gefið áður óþekktar leiðir til inngrips, meðal annars með rafrænni vöktun. Að mörgu er að hyggja fyrir stéttarfélögin, enda þurfa þau bæði að gæta að því að vera með allt sitt á hreinu og vera tilbúin að leiðbeina sínum félagsmönnum um þennan vandmeðfarna málaflokk. Námskeið um persónuvernd launafólks verður haldið 9. febrúar.

Í mars verður boðið upp á námskeið til að kynna alþjóðlega verkefnið Global Deal, sem byggir á fjórum af sautján heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Farið verður yfir forsögu verkefnisins, hugmyndafræðina á bak við það og hvernig stéttarfélög geta lagt sitt af mörkum. Námskeiðið fer fram þann 2. mars.

Í apríl verður svo boðið upp á námskeið um leiðir til að stuðla að betri líðan og jákvæðari samskiptum, brjóta upp óeðlilegt samskiptamunstur, meðvirkni og fleira. Markmiðið með námskeiðinu, sem hefst 9. apríl, er að styrkja einstaklinga í starfi og efla mannauð stofnana og fyrirtækja.

Boðið er upp á að sitja öll námskeiðin í gegnum fjarfundabúnað fyrir þá sem ekki eiga heimangengt. Námskeiðin eru aðeins ætluð stjórnarfólki og starfsmönnum aðildarfélaga BSRB og ASÍ.

Nánari upplýsingar um námskeiðin má finna á vef Forystufræðslu ASÍ og BSRB, þar sem einnig er hægt að skrá sig á námskeiðin.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?