Námskeið um vaktavinnu

Starfsmennt hefur nú opnað fyrir skráningu á námsleiðina Vaktavinna og lýðheilsa. Náminu er ætlað að tryggja að stjórnendur sem skipuleggja vinnu á vöktum og starfsmenn sem ganga vaktir eigi þess kost að sækja námskeið í gerð vaktskráa sem taka mið af líkamsklukku og heilsuvernd.

Áhrif vaktavinnu á lífsgæði og heilsu eru ótvíræð og hafa margar rannsóknir sýnt fram á það. Vaktavinnustörfum hefur fjölgað og það að ganga vaktir því vinnufyrirkomulag fjölda fólks. Til að sporna gegn óæskilegum langtímaáhrifum vaktavinnu á heilsu, líðan og öryggi, hafa aðilar á vinnumarkaði sameinast um fræðslu fyrir starfsmenn sem ganga vaktir og stjórnendur sem skipuleggja þær.

Námið samanstendur af þremur sjálfstæðum námslotum sem mynda eina heild og eru teknar í tímaröð. Námsloturnar eru: 1. Lýðheilsa og vaktir (11 klst.), 2. Umgjörð kjarasamninga (6 klst.) og 3. Vaktavinnufyrirkomulag og vinnumenning (11 klst.). Alls er námsleiðin 28 klukkustundir.


Námið fara fram bæði á Akureyri og á höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem hafa áhuga á að skrá sig á Akureyri geta gert það með því að smella hér. Þeir sem vilja skrá sig á höfuðborgarsvæðinu geta skráð sig með því að smella á rétta lotu; lotu 1, lotu 2 eða lotu 3.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?