Námskeið um vottun jafnlaunakerfa

Velferðarráðuneytið stendur ásamt endurmenntun Háskóla Íslands fyrir námskeiði um vottun jafnlaunakerfa. Á námskeiðinu verður fjallað um lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, vinnurétt, kjarasamninga, launagreiningar og flokkun og mat á verðmæti starfa. Námskeiðinu lýkur með útgáfu skírteinis fyrir þá sem ljúka námskeiðinu með prófi.

Á baráttudegi kvenna, 24. október 2014, undirritaði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra reglugerð nr. 929/2014, um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85:2012. Reglugerðin hefur stoð í lögum nr. 10/2008, um jafnan stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. 
Markmið reglugerðarinnar er að jafnlaunakerfi fyrirtækja og stofnana séu vottuð í samræmi við alþjóðlegar kröfur sem gilda um vottun og vottunaraðila. Í reglugerðinni er kveðið á um kröfur til vottunarferilsins og þeirra sem vottunina annast. Markmiðið er að vottunin samræmist alþjóðlegum kröfum um ferli og framkvæmd vottunar. Samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar skal velferðarráðuneytið sjá til þess að haldið verði námskeið fyrir úttektarmenn í jafnréttis- og vinnumarkaðsmálum, sem þýðingu hafa fyrir vottun í samræmi við kröfur staðalsins ÍST 85:2012, svo uppfylla megi kröfur faggildingarstaðalsins ÍST EN ISO/IEC 17021 um sérfræðiþekkingu. 

Námskeiðið er sex skipti, tveir klukkutímar í senn.

Á námskeiðinu er fjallað um:

• Staðla, vottun og faggildingu
• Starfaflokkun
• Launagreiningu
• Jafnréttislöggjöf og dómaframkvæmd
• Vinnurétt og skipulag vinnumarkaðsmála

Aðrar upplýsingar:

Hægt er að sækja námskeiðstímana í gegnum fjarfundarbúnaðinn Adobe connect og koma svo á staðin þann 5. júní til að taka prófið. Adobe Connect er almennt fjarfundakerfi sem notar vafra. Þátttakendur fá senda slóð þar sem þeir skrá sig inn á námskeiðið. Vinsamlegast taktu fram í athugasemdareit við skráningu ef þú vilt sækja námskeiðið í fjarfundi.
Frekari upplýsingar veitir Helga Ormsdóttir með tölvupósti á netfangið helgaso@hi.is og í síma 525-4944.
Auk þess má fræðast betur um námskeiðið á heimasíðu endurmenntunar Háskóla Íslands.
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?