NFS gefur FIFA rauða spjaldið

Fulltrúar NFS, Norræna verkalýðssambandsins, gáfu FIFA í dag rauða spjaldið á þingi NFS sem fer fram þessa dagana í Köge í Danmörku. Innan NFS eru öll helstu heildarsamtök launafólks á Norðurlöndunum, þar á meðal BSRB.

Hluti af dagskrá þingsins laut að FIFA og málefnum tengdum heimsmeistaramótinu í Katar sem á að fara fram þar í landi árið 2022. NFS hefur ásamt öðrum alþjóðlegum samtökum verkafólks bent á hin miklu og grimmu mannréttindabrot sem framin eru daglega í Katar. Farandverkamenn þar í landi njóta engra réttinda og er gert að skila atvinnurekendum sínum vegabréfum við komuna til landsins. Aðbúnaður verkafólksins er mjög bágur og laun gjarnan langt fyrir neðan það sem áður hafði verið samið um. Vegna hinna mjög sérstöku og ströngu laga í Katar getur launafólk hins vegar með mjög takmörkuðum hætti barist fyrir betri aðbúnaði. Þá komast þeir ekki einu sinni úr landi nema með samþykki yfirmanna sinna.

Samkvæmt mati ITUC, International Trade Union Confederation, hafa um 1200 verkamenn þegar látið lífið í Katar við byggingu íþróttamannvirkja fyrir HM 2022 og ef fram heldur sem horfir munu meira en 4000 hafa látist áður en flautað verður til leiks á heimsmeistaramótinu.

Rannsókn yfirvalda í Sviss og Bandaríkjunum og handtaka nokkurra æðstu stjórnarmanna FIFA vegna meintra mútuþægni við ákvarðanir þess að heimsmeistaramótin 2018 og 2022 eigi að fara fram í Rússlandi og Katar hefur nú aftur varpað kastljósinu að málefnum verkafólks í Katar. Þing NFS ákvað því að ítreka kröfur sínar um að hætt verði við heimsmeistarakeppnina í Katar nema þegar verið tryggt að þeim sem starfa við undirbúning keppninnar í Katar verði nú þegar tryggð mannsæmandi kjör og réttindi með kjarasamningum.

Hér að neðan má sjá mynd sem sýnir hversu margir verkamenn létust við byggingu íþróttamannvirkja fyrir helstu íþróttaviðburði síðustu ára í samanburði við þá sem þegar hafa látið lífið við vinnu sína við uppbygginguna í Katar.


 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?