Níu verkefni í vinnslu eftir samráðsfundi

Alls hafa tíu samráðsfundir verið haldnir frá desember 2017.

Níu verkefni sem rædd hafa verið á samráðsfundum stjórnvalda með aðilum vinnumarkaðarins eru enn í vinnslu en þremur hefur verið lokið. Þetta kemur fram í yfirliti sem forsætisráðuneytið hefur birt.

Stjórnvöld boðuðu aðila vinnumarkaðarins til fyrsta samráðsfundarins í desember 2017, fljótlega eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum. Alls hafa verið haldnir tíu sambærilegir fundir síðan.

Þau þrjú verkefni sem leitt hafa af samtalinu og telst lokið eru hækkun atvinnuleysistrygginga, hækkun hámarksgreiðslna Ábyrgðarsjóðs launa og niðurlagning kjararáðs.

Þau níu mál sem forsætisráðuneytið telur upp og segir í vinnslu eru eftirfarandi:

  1. Endurskoðun tekjuskattskerfis
  2. Frumvarp um nýtt fyrirkomulag launa kjörinna fulltrúa
  3. Hagsveifluleiðrétt atvinnuleysistryggingagjald
  4. Úttekt á Fræðslusjóði
  5. Starfshópur um umbætur á úrvinnslu og nýtingu launatölfræðiupplýsinga
  6. Upptaka launaupplýsinga frá öllum launagreiðendum að norskri fyrirmynd
  7. Skattlagning greiðslna úr sjúkrasjóðum
  8. Yfirlýsing vegna kjarasamninga við BHM
  9. Tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar
Dagskrá og gögn opin öllum

Forsætisráðuneytið hefur einnig gert opinbera dagskrá allra fundanna, auk allra gagna sem hafa verið lögð fram. Þar er meðal annars hægt að skoða minnisblöð þar sem sjónarmiðum BSRB er komið á framfæri, auk glærusýninga frá kynningum fulltrúa bandalagsins á fundunum.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, og eftir atvikum fyrsti varaformaður eða aðrir fulltrúar bandalagsins hafa setið samráðsfundina. Þar hafa einnig verið fulltrúar annarra aðila vinnumarkaðarins; Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Kennarasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Þá hafa ríkissáttasemjari og fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga setið fundina. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar á fundunum hafa verið forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, en auk þeirra hafa félags- og jafnréttismálaráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra sótt fundina eftir þörfum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?