Nordisk Forum hófst í dag

Nordisk Forum hófst í Malmö í dag og mun fjöldi Íslendinga taka þátt í ráðstefnunni. Nordiskt Forum er skipulögð af norrænu kvennahreyfingunni á Íslandi, í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð og á meðan á ráðstefnunni stendur munu þátttakendur úr öllum áttum, fræðimenn, stjórnmálamenn, aktífistar, fulltrúar fyrirtækja og félagasamtaka, listamenn og femínistar, ræða áskoranir jafnréttisbaráttunnar í dag og lausnir framtíðarinnar.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, er ein þeirra sem mun taka þátt í opinberu pallborðsumræðum ráðstefnunnar og þá mun frú Vigdís Finnbogadóttir ávarpa ráðstefnuna á opnunarhátíðinni í kvöld, fimmtudaginn 12. júní.

Fjöldi annarra íslenskra kvenna úr öllum áttum taka þátt í opinberu pallborðsumræðum ráðstefnunnar, í hinni svokölluðu „norrænu dagskrá“. Auður Ingólfsdóttir, Guðrún Jónsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Margrét Steinarsdóttir, María Lilja Þrastardóttir, Katrín Anna Guðmundsdóttir, Maríanna Traustadóttir, Þorgerður Einarsdóttir, Þóra Arnórsdóttir, Þórdís Elva Þorvaldsdóttir og Þórlaug Ágústsdóttir ræða helstu áskoranirnar í jafnréttisbaráttunni í dag.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?