Norræna verkalýðshreyfingin þéttir raðirnar

Stjórn Norræna verkalýðssambandsins (NFS) samþykkti á fundi sínum þann 22. nóvember ályktun þar sem mótmælt er áformum finnsku ríkisstjórnarinnar um að veikja samnings- og verkfallsrétt launafólks í Finnlandi og draga úr stuðningi við og réttindum atvinnulausra. Hvatt er til þess að ríkisstjórnin dragi tillögurnar til baka og virði þá venju að ákvarðanir um vinnumarkaðinn séu teknar í þríhliða samráði aðilanna vinnumarkaðarins - stjórnvalda, launafólks og atvinnurekenda. Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hagfræðingur BSRB sóttu fundinn sem haldinn var í Vilníus.

Luc Triangle, nýr framkvæmdastjóri Alþjóðaverkalýðssambandsins (ITUC), var gestur fundarins og ræddi áherslur sambandsins á næsta ári. Þær verða í samræmi við nýja samfélagssáttmálann (The New Social Contract) sem samþykktur var á þingi sambandsins haustið 2022. ITUC mun sérstaklega beita sér fyrir aukinni umræðu og fræðslu um lýðræði og frið því lýðræði stendur víða höllum fæti og ríkjum sem þróast í einræðisátt fer fjölgandi. Það ógnar verkalýðshreyfingunni sérstaklega, og þar með mannréttindum, því hreyfingin er stærsta félagshreyfing í heimi sem stendur vörð um grundvallarréttindi launafólks og lífskjör þeirra í víðum skilningi. Samtakamáttur launafólks er sterkasta brjóstvörnin gegn aukinni skautun samfélagsins og fyrir betra samfélagi.

Þá var fjallað um það sem ber helst á vettvangi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO). Stofnunin grundvallast á þríhliða samtali og ákvörðunum fulltrúa launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda aðildarríkja sem eru nærri 200. Áfangasigur hefur náðst eftir margra ára deilu innan ILO milli launafólks og atvinnurekanda um hvort verkfallsrétturinn sé tryggður með einni af grundvallarsamþykktum ILO, samþykkt nr. 87 um félagafrelsi og verndun þess. Magnús M. Norðdahl, fulltrúi NFS í stjórn ILO fjallaði um deiluna og að nú hafi loksins verið samþykkt af stjórninni að vísa málinu til Alþjóðadómstólsins í Haag til að skera úr um hvort að rétturinn til verkfalla falli undir samþykktina. Magnús taldi mjög góðar líkur á að úrskurðurinn verði launafólki í hag en búast má við að niðurstaða fáist ekki fyrr en eftir eitt til tvö ár.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?