Ný stjórn kosin á aðalfundi SFR

Fjölmennur aðalfundur SFR fór fram í gær þar sem ný stjórn félagsins var kosin. Árni Stefán Jónsson var sjálfkjörinn sem formaður til næstu þriggja ára samkvæmt nýjum lögum félagsins. Auk hans sitja áfram þau Bryndís Theódórsdóttir frá Vinnumálastofnun, Hildur Kristín Ásmundsdóttir frá Isavia, Jóhanna Sóley Gunnarsdóttir frá Landspítala, Jóhanna Vilhjálmsdóttir frá Fiskistofu, Salóme Berglind Guðmundsdóttir frá Fangelsismálastofnun og Sigurður H. Helgason frá Tilraunastöð háskólans að Keldum.

Auk þeirra voru kosin ný inn í stjórn þau Viðar Ernir Axelsson frá Landhelgisgæslu Íslands, Gunnar Garðarsson frá Vegagerðinni, Sigurlaug Hrefna Sverrisdóttir frá Háskóla Íslands og Þórey Einarsdóttir frá Sjálfsbjargarheimilinu. Stjórnin mun skipta með sér verkum á sínum fyrsta fundi, og þá kemur m.a. í ljós hver mun gegna varaformennsku í félaginu.

Úr fyrri stjórn létu þrjú af störfum vegna útskiptareglna félagsins en það voru þau Olga Gunnarsdóttir, Ólafur Hallgrímsson og Védís Guðjónsdóttir varaformaður. En auk þeirra lét Óskar Þór Vilhjálmsson af störfum vegna anna á öðrum vettvangi.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?