Nýjar reglur um kynferðislega áreitni

Örugg í vinnunni? Það er yfirskrift hádegisverðarfundar sem BSRB, Alþýðusamband Íslands, BHM, BSRB, Kennarasamband Íslands, Jafnréttisstofa og Jafnréttisráð standa fyrir þriðjudaginn 8. mars. Þar verður fjallað um kynbundna og kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Fundurinn er haldinn í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna þann sama dag.

Allir eru boðnir velkomnir á fundinn meðan húsrúm leyfir. Hann fer fram í Hvammi, Grand Hótel Reykjavík milli klukkan 11:45 og 13. Boðið verður upp á hádegisverð og kostar hann aðeins 2.500 krónur.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, verður einn þriggja fyrirlesara á fundinum. Í erindi sínu mun Sonja fjalla um kynbundna og kynferðislega áreitni á vinnustað út frá nýjum reglum.

Sonja mun meðal annars fjalla um að nú ber vinnuveitendum að vernda starfsmenn sína fyrir áreiti af hendi þriðja aðila, til dæmis viðskiptavina. Einnig er komið inn nýtt ákvæði sem skyldar vinnuveitendur til að bregðast við til að tryggja góða líðan starfsmanna í kjölfar kvörtunar yfir áreiti, hvort sem niðurstaða athugunar er sú að um áreiti hafi verið að ræða eða ekki.

Aðrir fyrirlesarar verða þær Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands, og Finnborg Salome Steinþórsdóttir, doktorsnemi í kynjafræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Drífa mun fjalla um kynbundið vald á vinnumarkaðinum, en Finnborg um hvort kynferðisleg áreitni sé óhjákvæmileg.

Laufey E. Gissurardóttir, formaður Þroskaþjálfafélags Íslands, verður fundarstjóri.

Stofnaður hefur verið Facebook-viðburður (sjá hér) fyrir fundinn sem ágætt er að melda sig á. Við hvetjum alla til að deila viðburðinum með vinum og kunningjum sem gætu haft áhuga á efni hans.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?