Nýr og endurbættur vefur Styrktarsjóðs BSRB

Nýr vefur Styrktarsjóðs BSRB er aðgengilegur og auðvelt að finna þar upplýsingar og hafa samband.

Nýr vefur Styrktarsjóðs BSRB er nú kominn í loftið. Á vefnum geta félagsmenn sem eiga réttindi í sjóðnum sótt sér upplýsingar um réttindi sín og sótt um styrki.

Á nýja vefnum er aðgengi að upplýsingum um réttindi sjóðsfélaga afar gott. Styrkirnir eru flokkaðir eftir tegundum svo auðvelt er að finna mismunandi styrki fyrir til að mynda líkamsrækt, sjúkraþjálfun, sálfræðiráðgjöf og fleira.

Notendur geta skráð sig inn með rafrænum skilríkjum eða Íslykli og sent öll fylgiskjöl og reikninga rafrænt, sem gerir fólki mun auðveldara fyrir að sækja um styrki úr sjóðnum.

Nær öll aðildarfélög BSRB eiga aðild að Styrktarsjóði BSRB, sem er rekinn algjörlega sjálfstætt og ekki tengdur rekstri BSRB. Aðeins þrjú félög standa að fullu utan sjóðsins, en það eru Landssamband lögreglumanna, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Póstmannafélag Íslands. Félögin þrjú sjá sjálf um styrkjamál fyrir sína félagsmenn og má nálgast frekari upplýsingar á vefsíðum félaganna.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?