Nýr þingvefur BSRB tekinn í notkun

Öll gögn fyrir þingfulltrúa verða aðgengileg á þingvefnum.

Nýr þingvefur BSRB, bsrbthing.is, hefur nú verið opnaður en hann verður nýttur til að koma gögnum og upplýsingum til þingfulltrúa á 45 þingi bandalagsins. Það mun fara fram dagana 17. til 19. október næstkomandi undir yfirskriftinni „Bætt lífskjör – Betra samfélag“.

Á vefnum geta þingfulltrúar og aðrir áhugasamir kynnt sér dagskrá þingsins, þau skjöl sem fjallað verður um á þinginu og upplýsingar um málefnahópa sem verða starfandi.

Þar verður líka að finna upplýsingar um þá sem gefa kost á sér til formennsku í BSRB á þinginu, en eins og komið hefur fram mun Elín Björg Jónsdóttir, formaður bandalagsins, ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Einn frambjóðandi hefur þegar gefið kost á sér en aðrir geta stigið fram að kosningu á þinginu sjálfu.

Þingvefurinn verður uppfærður reglulega bæði fyrir þingið og á meðan á því stendur, bætt inn upplýsingum um fyrirlesara, málstofur og fleira og sett inn gögn á borð við glærur og annað sem þarf að vera aðgengilegt þingfulltrúum.

Stefnt er að því að þingið verði rafrænt og þurfa því allir þingfulltrúar að koma með tölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma sem hægt er að nota til að skoða þingvefinn og sækja þangað upplýsingar. Vefurinn skalast vel í öllum tegundum tækja. Ef einhverjir þingfulltrúar hafa ekki aðgang að tæki sem hentar er þeim bent á að snúa sér til síns félags.

Skoðaðu þingvef BSRB.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?