Nýtt fræðsluefni um heilbrigða vinnustaðamenningu

Vinnueftirlitið hefur undanfarna mánuði unnið töluvert mikla vinnu í samstarfi við heildarsamtök launafólks og launagreiðendur við að búa til fræðsluefni um ýmis atriði sem snúa að öryggi og heilsu í vinnu. Nýjasta viðbótin er fræðsluefni um heilbrigða vinnustaðamenningu, sem er nú aðgengilegt á vef Vinnueftirlitsins.

Vinnustaðamenning er afgerandi þáttur í því hvernig fólki líður á vinnustað og heilbrigð menning stuðlar að öryggi og vellíðan starfsfólks og dregur úr hættu á einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Meðal efnis eru hagnýt ráð til að efla heilbrigða vinnustaðamenningu og traust á vinnustöðum og fræðslumolar um gerð samskiptasáttmála.

Stjórnendur eru í lykilhlutverki þegar kemur að því að skapa jákvætt andrúmsloft og heilbrigða menningu á vinnustað og hluta efnisins er beint að þeim sérstaklega. Fræðsluefnið er þó þess eðlis að það er gott fyrir starfsfólk, stéttarfélög og trúnaðarmenn að kynna sér það og nýta í sínum störfum. Heilbrigð vinnustaðamenning er samstarfsverkefni allra á vinnustaðnum og mikilvægasti þátturinn er gott samstarf og samtal milli stjórnenda og starfsfólks.

Hlekkur á efni:

https://vinnueftirlitid.is/vinnuumhverfi/oryggi-heilbrigdi/felagslegir-og-andlegir-thaettir/vinnustadamenning


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?