Ókeypis fyrirlestrar um stafræna hæfni

Fyrirlestrarnir eru opnir öllum en nauðsynlegt er að skrá sig til þátttöku.

Fræðslusetrið Starfsmennt fagnar 20 ára afmæli á árinu og býður af því tilefni upp á nokkra veffyrirlestra um stafræna hæfni frá ýmsum sjónarhornum. Næsti fyrirlestur verður miðvikudaginn 20. október.

Hægt er að skrá sig á vef Starfsmenntar til að fá hlekk á hvern fyrirlestur. Það er óþarfi að örvænta þó einhver missi af áhugaverðum fyrirlestrunum því að í byrjun desember verður hægt að skrá sig og nálgast upptökur af öllum fyrirlestrunum.

Næsti fyrirlestur verður haldinn miðvikudaginn 20. október, en þar verður fjallað um upplýsingalæsi í daglegu lífi. Þar mun Irma Hrönn Martinsdóttir, upplýsingafræðingur við Háskólann í Reykjavík og formaður Vinnuhóps íslenskra háskólabókasafna um upplýsingalæsi, gefa hagnýt ráð til að efla upplýsingalæsi. Allir sem vilja vera betri í að finna það sem þeir leita að á netinu ættu að leggja við hlustir.

Meðal efnis í öðrum fyrirlestrum verður menningarnæmni, þar sem fjallað verður um hvernig hægt er að skilja ólíka menningarheima, um persónuvernd í stafrænu samfélagi og ógnir internetsins.

Allir sem áhuga hafa á efni fyrirlestranna geta skráð sig til þátttöku á vef Starfsmenntar.

Fræðslusetrið Starfsmennt var stofnað árið 2001 og er samstarfsvettvangur fjármála- og efnahagsráðuneytis og flestra aðildarfélaga BSRB um starfstengt nám, starfsþróun og ráðgjöf á sviði mannauðseflingar. Starfsmennt styður færniþróun opinberra starfsmanna svo þeir séu betur í stakk búnir til að takast á við fjölbreytt verkefni og breytingar í starfsumhverfi. Jafnframt aukast möguleikar stofnana á að þróa starfsvið sitt þannig að það samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra á hverjum tíma.

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?