Opið fyrir umsóknir um nám í Genfarskólanum

Félagsmenn með áhuga á alþjóðamálum verkalýðshreyfingarinnar geta sótt um hjá Genfarskólanum.

Frestur til að skila inn umsókn fyrir nám í Norræna lýðháskólanum í Genf, Genfarskólanum, rennur út í lok janúar. Skólinn er ætlaður virkum félagsmönnum í stéttarfélögunum sem hafa áhuga á alþjóðamálum verkalýðshreyfingarinnar.

Æskilegt er að umsækjendur hafi sótt fræðslustarf á vegum verkalýðshreyfingarinnar og þekki til starfsemi stéttarfélaga og samtaka þeirra hér á landi.

Nám við Genfarskólann fer fram samhliða Alþjóðavinnumálaþinginu í Genf og dregur nafn sitt af því. Í náminu kynnast nemendur þinghaldinu og Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO), en stofnunin starfar að vinnumálum á vegum Sameinuðu þjóðanna.

Á þinginu sitja fulltrúar frá stjórnvöldum, atvinnurekendum og samtökum launafólks um allan heim. Nemendur í Genfarskólanum fá að kynnast norrænu samstarfi á vettvangi ILO og ýmis alþjóðasamtök verkalýðshreyfingarinnar sem starfa með stofnuninni.

Námskeið í Svíþjóð og nám í Genf

Þeir nemendur sem fá inngöngu í skólann að þessu sinni sækja kynningarfundi hér á landi í mars með fulltrúum Íslands á ILO-þinginu og þátttakendum síðasta árs. Því næst fara þeir á fornámskeið í Svíþjóð dagana 12. til 15. apríl. Að því loknu verða þeir í fjarnámi í apríl og maí. Aðalnámskeiðið fer svo fram dagana 24. maí til 12. júní í Genf. Nauðsynlegt er að umsækjendur hafi gott vald á einu norðurlandamáli og hafi auk þess góða enskukunnáttu.

Undanfarin ár hafa tveir nemendur frá Íslandi sótt Genfarskólann. BSRB og ASÍ greiða námskeiðsgjöld og flugfargjöld fyrir einn nemanda hvort.

Sótt er um í gegnum vef Genfarskólans og þar má einnig fá allar upplýsingar um skólann og námið. Sækja þarf um í síðasta lagi þann 31. janúar næstkomandi.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?