Óskiljanleg ákvörðun kjararáðs

BSRB mótmælir harðlega ákvörðun kjararáðs um að hækka laun nokkurra forstöðumanna ríkisstofnanna og nefndarformanna um tugi prósenta umfram hækkanir annars launafólks.

Fréttablaðið greinir frá því í dag að kjararáð hafi hækkað laun ríkislögreglustjóra, landlæknis, formanns kærunefndar útlendingamála, skólastjóra Lögregluskóla ríkisins, forstjóra Útlendingastofnunar, forstjóra Fangelsismálastofnunar og forstjóra Barnaverndarstofu. Launin hækka um tugi prósenta umfram þær hækkanir sem kjararáð hafði þegar ákveðið með almennri ákvörðun um áramót.

Mest hækka laun formanns kærunefndar útlendingamála, um 48%, frá og með 1. desember 2014, rúmlega eitt og hálft ár aftur í tímann. Laun annarra hækka um 29-35% samkvæmt því sem fram kemur í Fréttablaðinu, afturvirkt um eitt ár.

Með þessum ákvörðunum heldur kjararáð áfram að hækka laun hæst launuðustu starfsmanna ríkisins um tugi prósenta umfram þær hækkanir sem annað launafólk hefur fengið og hafa verið í samræmi við SALEK-samkomulagið.

Hækkað langt umfram samkomulag
„Það gengur ekki að aðeins hluti launafólks eigi að taka þátt í því að byggja hér upp nýtt vinnumarkaðskerfi,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB. „Aðilar vinnumarkaðarins hafa gert með sér rammasamkomulag sem átti að koma í veg fyrir að einstakir hópar hækkuðu meira en aðrir, sem kallar alltaf á kröfu um leiðréttingar. Þessi hækkun ríkisforstjóra er langt umfram það samkomulag og því engin leið að hægt sé að sætta sig við hana.“

Í flestum ákvörðunum kjararáðs, sem lesa má á heimasíðu ráðsins, er vísað til þess að álag í starfi þessara starfsmanna, sem eru meðal þeirra hæst launuðustu sem starfa hjá ríkinu, hafi aukist verulega undanfarið.

Það er engin ástæða til að efast um að álag í starfi þessara ríkisforstjóra og nefndarmanna hafi aukist á undanförnum árum. Það sama á auðvitað við um aðra stóra hópa á vinnumarkaði sem hafa upplifað gríðarlega mikið álag í starfi árum saman eftir niðurskurð og samdrátt. Þessum hópum hefur ekki staðið til boða að fá tuga prósenta launahækkanir.

Verður ekki án afleiðinga
Ákvörðun kjararáðs um að hækka laun vel launaðra ríkisforstjóra um tugi prósenta, afturvirkt í ár eða meira, er í engu samræmi við það samkomulag sem aðilar á vinnumarkaði, ríkið þar með talið, hafa náð um endurbætur á vinnumarkaðsmódelinu.

„Þessi mikla hækkun hjá hópi sem hefur haft mjög góð laun eykur á ójöfnuð í samfélaginu og verður ekki án afleiðinga. Hún kallar augljóslega á að fleiri hópar fái leiðréttingu á launum vegna mikils álags,“ segir Elín Björg.

„Kjararáð hefur sett ákveðið fordæmi með ákvörðunum um tuga prósenta hækkanir, fyrst fyrir ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra ráðuneyta, og nú fyrir forstjóra nokkurra ríkisstofnana. Til þess fordæmis hljótum við að leita þegar kemur að því að sækja sambærilegar hækkanir fyrir annað launafólk sem upplifað hefur aukið álag í starfi,“ segir Elín.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?