Óveruleg aukning útgjalda til almannaþjónustunnar

Aukin framlög til heilbrigðisþjónustunnar skila sér ekki í rekstur heilbrigðiskerfisins.

Bæta þarf verulega í útgjöld ríkisins til almannaþjónustunnar að mati BSRB enda er aðeins óveruleg aukning boðuð í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í morgun. Þannig eru til að mynda aukin framlög til heilbrigðisþjónustunnar að stærstum hluta vegna heimsfaraldursins og byggingu nýs Landspítala en ekki til að styrkja heilbrigðiskerfið í heild sinni.

Í kynningu á fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar kom fram að þar sé megináherslan á að tryggja atvinnuöryggi, skapa fleiri störf og minnka skuldabyrði. Það sé hægt án þess að hækka skatta og án þess að fara í niðurskurð þar sem búið verði við halla á ríkissjóði nokkur ár í viðbót. Fjármálaráðherra boðaði að innspýting verði í heilbrigðismál, staðið verði með barnafjölskyldum, örorkulífeyrir hækki umfram verðlag og skerðingarmörk vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega hækki.

Þrátt fyrir þetta er erfitt að sjá annað en að verið sé að boða stöðnun þegar kemur að almannaþjónustunni, sem hefur verið undir gríðarlegu álagi í heimsfaraldrinum og í mörgum tilvikum löngu áður en hann skall á. Boðuð aukning til málaflokksins er óveruleg og ekki verður slakað á aðhaldskröfum til mikilvægra stofnana. Ákalli eftir auknu fé í heilbrigðisþjónustuna, þar sem mönnunarvandinn er víða gríðarlega alvarlegur, er ekki svarað. Aukning á fjárheimildum til málaflokksins eru að stærstum hluta viðbrögð við heimsfaraldrinum og framlög til byggingar á nýju húsnæði en ekki fjármunir sem hægt er að nýta til að efla heilbrigðiskerfið.

Öflug almannaþjónusta leggur grunninn að góðri heilsu, þekkingu og færni til að takast á við þær samfélagsáskoranir sem við stöndum frammi fyrir vegna áhrifa heimsfaraldursins, breyttrar aldurssamsetningar og loftslagsbreytinga. BSRB bendir jafnframt á að enn er óvissa um þróun faraldursins og afleiðingar hans. Eftir vanfjármögnun sem má rekja aftur um áratug er kominn tími til að blása til sóknar og grípa til aðgerða sem fela í sér raunverulega lífskjarasókn. Það er gert með því að styrkja almannaþjónustuna til að standa undir sterkri velferð og tryggja að ekki verði gengið enn frekar á andlega og líkamlega heilsu starfsfólksins sem veitir þjónustuna.

Jöfnum byrðarnar

Eignaójöfnuður er að aukast og atvinnuleysi er ennþá mun hærra en við eigum að venjast. Lausnina við langvinnum skaða af Covid-kreppunni er að finna í norræna velferðarlíkaninu. Með eflingu jöfnunarhlutverks skattkerfisins, sterkri afkomutryggingu og öflugri atvinnuuppbyggingu stuðlum við að velsæld og verðmætasköpun.

Öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði hvort sem er til leigu eða eigu er ein stærsta krafa launafólks. Engin breyting er boðuð á framlögum til húsnæðisuppbyggingar í fjárlagafrumvarpinu sem veldur miklum vonbrigðum.

Aukning ráðstöfunartekna tekjulægstu hópanna sem boðuð er í fjárlagafrumvarpinu er til bóta en eins prósents hækkun á örorkulífeyri umfram verðlag mun ekki hafa mikil áhrif á lífskjör öryrkja og því síður hjálpa þeim sem fastir eru í fátæktargildru að komast út úr vandanum.

Hækkun skerðingarmarka barnabóta er jákvæð en hins vegar bíður enn það verkefni að ráðast í heildarendurskoðun á barnabótakerfinu þar sem aðeins tekjulægstu foreldrarnir fá barnabætur hér á landi í núverandi kerfi á meðan foreldrar á flestum öðrum Norðurlöndum fá allir sömu bætur óháð efnahag.

Þarf aðgerðir fyrir tekjulægstu hópana

Um fjórðungur launafólks, helmingur atvinnulausra og 80 prósent öryrkja eiga erfitt með að ná endum saman samkvæmt nýlegum könnunum Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins. Erfiðleikarnir eru mestir hjá öryrkjum, atvinnulausum, innflytjendum og einstæðum foreldrum. Auka verður framlög til almenna íbúðakerfisins, hækka greiðslur almanna- og atvinnuleysistrygginga til að draga úr tekjuójöfnuði, og draga verður stórlega úr tekjutengingum barnabótakerfisins þannig að bæturnar skerðist aðeins í allra hæstu tekjutíundunum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?