PFÍ semur við Íslandspóst

Samninganefnd Póstmannafélags Íslands hefur undirritað nýjan kjarasamning við Íslandspóst hf. Samningurinn gildir frá 1. febrúar 2014 til 28. febrúar 2015.

Fyrir skemmstu undirritaði Starfsmannafélag Reykjavíkur nýja kjarasamninga við Reykjavíkurborg og mun niðurstaða atkvæðagreiðslu vegna þeirra samninga liggja fyrir næstkomandi þriðjudag. Þá hefur SFR einnig undirritað samning við Reykjavíkurborg og viðræður SFR við Samninganefnd ríkisins eru langt komnar.

Nú hefur svo þriðja BSRB félagið, Póstmannafélag Íslands, undirritað nýja samninga. Helstu atriði nýs kjarasamnings PFÍ eru að:

  • frá 1. febrúar hækka laun og aðrir launaliðir um 2.8% þó að lágmarki kr. 8.000 á mánuði fyrir fulla dagvinnu miðað við fullt starf.
  • Allir félagsmenn Póstmannafélagsins sem nú taka laun samkvæmt launaflokki 8 – 16 fá hækkun um einn launaflokk. Þ.e. sá sem er í launaflokki 8 færist í launaflokk 9 o.s.frv. Í stað launabreytingar frá 1. janúar 2014 greiðist sérstök eingreiðsla 14.600 kr. m.v. fullt starf, enda hafi starfsmaður starfað í janúar og var enn í starfi 1. febrúar 2014 .
  • Orlofsuppbót fyrir 2014 verður kr. 39.500.
  • Desemberuppbót fyrir 2014 verður kr. 73.400.
  • Fæðisfé á samningstímabilinu verður kr. 8.150 á mánuði.
  • Skópeningar bréfbera og bílstjóra sem ekki fá afhenta öryggisskó verða kr. 28.500 á ári miðað við fullt starf.
  • Kjarasamningurinn gildir til 28. febrúar 2015. Samningurinn byggir á sömu forsendum og kjarasamningur SA og ASÍ frá 21. desember 2013.
  • Aðrir liðir kjarasamningsins framlengjast óbreyttir. Á samningstímanum mun verða unnið við breytingar á þeim liðum í kröfugerðum aðila sem lagðar voru fram í upphafi viðræðna og ekki var lokið við gerð þessa samnings. Sú vinna verður samkvæmt viðræðuáætlun sem aðilar munu koma sér saman um.
  • Yfirlýsing 8 sem fylgdi fyrri samningi stendur en er nú yfirlýsing 6 gildir fyrir alla vaktavinnumenn sem eru í starfi við undirritun samningsins ef verður af breytingu þeirri á vaktafyrirkomulagi sem kemur fram í yfirlýsingunni. Sjá kafla 3.8.5. í kjarasamningi.
  • Þann 1. janúar 2015 hækkar framlag í starfsmenntunarsjóð um 0,1% og verður þá 0,28%.

Stjórn og samninganefnd Póstmannfélagsins hvetur félagsmenn til að nýta sér atkvæðisrétt sinn og greiða atkvæði um kjarasamninginn. Félagsmönnum hefur verið sendur atkvæðaseðill vegna kjarasamninganna og ítarleg kynning á efni hins nýja samnings. Fundur til kynningar á nýgerðum kjarasamningi milli Póstmannafélags Íslands og Íslandspósts hf. verður haldinn mánudaginn 17. mars klukkan 20:00 að Grettisgötu 89.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?