Póstmenn fyrstir til að skrifa undir kjarasamning

Kjarasamningur Póstmannafélags Íslands við SA fyrir hönd Íslandspósts var undirritaður í gær.

Póstmannafélag Íslands varð í gær fyrsta aðildarfélag BSRB til að gera nýjan kjarasamning á þessu ári. Samninganefnd félagsins skrifaði undir kjarasamning við Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Íslandspósts, en samningar félagsins höfðu verið lausir frá áramótum.

Samningurinn sem undirritaður var í gær byggir á lífskjarasamningnum sem stéttarfélög á almenna vinnumarkaðinum undirrituðu í apríl en við bætast ýmsar leiðréttingar á gamla samningnum. Þar má nefna ákvæði um tímavinnu og aðstöðu bréfbera og bílstjóra sem ekki hafa aðgang að mötuneytum. Þá eru þar ákvæði um styttingu vinnutíma samkvæmt ákvörðun starfsmanna og aukið framlag í orlofssjóð, samkvæmt upplýsingum frá Póstmannafélagi Íslands.

Gildistími samningsins er sá sami og á almennum markaði, eða frá 1. apríl 2019 til 1. nóvember 2022.

Kynning á samningnum er nú í undirbúningi hjá félaginu og rafræn kosning undirbúin. Kynningar munu að mestu fara fram í næstu viku. Formaður og aðrir stjórnarmenn munu mæta á vinnustaði eins og hægt verður auk þess sem ákveðið hefur verið að boða kynningarfund í BSRB-húsinu.

Önnur aðildarfélög BSRB í viðræðum

Kjarasamningar allra annarra aðildarfélaga BSRB eru lausir og hafa flestir verið það frá því í byrjun apríl. Samningaviðræður hafa verið í gangi og hafa félögin falið bandalaginu að semja um sameiginleg mál á borð við styttingu vinnuvikunnar og jöfnun launa milli markaða. Aðeins eitt aðildarfélag bandalagsins, Félag íslenskra flugumferðarstjóra, hefur vísað kjaradeilu sinni til ríkissáttasemjara enn sem komið er.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?