Póstmenn samþykkja nýjan kjarasamning

Póstmannafélagið er fyrsta aðildarfélag BSRB til að gera kjarasamning á árinu.

Félagsmenn í Póstmannafélagi Íslands samþykktu nýgerðan kjarasamning félagsins við Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Íslandspósts með yfirgnæfandi meirihluta í rafrænni kosningu sem lauk klukkan 10 í dag.

Alls samþykktu 79 prósent þeirra sem greiddu atkvæði samninginn en 16 prósent vildu hafna honum. Um 5 prósent tóku ekki afstöðu til samningsins. Alls voru 848 á kjörskrá og var kjörsókn tæplega 36 prósent.

Póstmannafélag Íslands er því fyrsta aðildarfélag BSRB sem gerir kjarasamning á árinu. Öll önnur aðildarfélög bandalagsins eru enn með lausa kjarasamninga og standa viðræður við viðsemjendur yfir.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?