Ráðstefna í Brussel um fjögurra daga vinnuviku

Dagný Aradóttir Pind, lögfræðingur í pallborði á ráðstefnu um styttingu vinnuvikunnar

Á dögunum var haldin ráðstefna um styttingu vinnuvikunnar í Brussel. Yfirskrift ráðstefnunnar var Fjögurra daga vinnuvika fyrir Evrópu? Þátttakendur komu víða að og var fulltrúi BSRB, Dagný Aradóttir Pind, meðal framsögumanna.

Á ráðstefnunni voru erindi frá ólíkum aðilum, svo sem stéttarfélögum og öðrum hagsmunafélögum, fræðafólki, rannsóknarstofnunum og stjórnmálafólki.

Fyrirkomulagið á Íslandi fyrirmynd

Það kom skýrt fram á ráðstefnunni að litið er til Íslands sem fyrirmyndar þegar kemur að styttri vinnuviku. Í erindi sínu rakti Dagný hvernig undirbúningur og framkvæmd fór fram hér á landi. Allt frá því að félagsfólk í BSRB fór fyrst að tala um styttri vinnuviku, að tilraunaverkefnum sem BSRB barðist fyrir og þar til kjarasamningar voru undirritaðir árið 2020. En í þeim samningum var vinnuvika dagvinnufólks í fullu starfi stytt í 36 stundir og vinnuvika vaktavinnufólks með þyngstu vaktabyrðina allt niður í 32 stundir.

Stéttarfélög með jafnrétti að leiðarljósi

Það vakti athygli ráðstefnugesta að stéttarfélög væru í fararbroddi þegar kemur að styttingu vinnuvikunnar á Íslandi og að kjarasamningar væru tækið sem notað var til að koma henni á. Í flestum öðrum löndum, að Norðurlöndum og Þýskalandi undanskildum, er helst horft til þess að styttingin komi í gegnum frumkvæði einstakra atvinnurekanda eða stjórnmálin, með tilraunaverkefnum sem sett eru á fót með pólitískum ákvörðunum sem kunna að leiða til lagasetningar. Þátttakendur á ráðstefnunni voru sammála um að það fælist mikill styrkur í því að nýta sameinaða krafta launafólks til að gera kröfu um styttingu og ef til vill væri það ein helsta skýring þess hversu vel hefði gengið á Íslandi.

Þá vakti einnig mikla athygli áherslan á kynjajafnrétti í hugmyndafræðinni um styttingu vinnuvikunnar. Eitt helsta markmið BSRB með vinnutímabreytingum hefur verið að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði, bæði það að gefa karlmönnum meiri kost á að sinna umönnun og heimilisstörfum og ekki síður með því að gefa konum kost á að hækka starfshlutfall sitt án þess að auka vinnuskyldu og hækka þannig tekjur kvenna.

Tilraunverkefni um styttri vinnuviku í Bretlandi

Fyrirlesarar komu frá mörgum löndum. Þar á meðal Þýskalandi, Spáni og Portúgal. Lykilfyrirlesturinn hélt herferðarstjóri 4 Day Week Campaign í Bretlandi. Þar hefur í nokkur ár verið rekin herferð fyrir fjögurra daga vinnuviku. Herferðin byrjaði smátt og gekk út á það að fá fyrirtæki til þess að stytta vinnuvikuna að eigin frumkvæði. Áhugi á styttri vinnuviku hefur aukist verulega í Bretlandi og þar fer nú fram tilraunaverkefni með þátttöku 70 fyrirtækja og mörgþúsund starfsmanna. Gerðar verða ýmsar mælingar samhliða tilraunverkefninu og er niðurstaðna að vænta snemma á næsta ári. Þá kom einnig fram að eitt sveitarfélag er að hefja tilraunaverkefni og verður spennandi að sjá niðurstöður þess þegar þær liggja fyrir. Einnig hefur þingmaður verkamannaflokksins lagt fram frumvarp um fjögurra daga vinnuviku. Þá eru áhugaverð tilraunaverkefni um styttri vinnuviku í gangi í Valencia héraði á Spáni og á fleiri stöðum í álfunni auk þess sem samtök launafólks víða eru að berjast fyrir styttri vinnuviku.

Hér eru aðgengilegar upptökur frá ráðstefnunni


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?