Réttlát umskipti lykilhugtak í loftslagsmálum

Nauðsynlegar aðgerðir í loftslagsmálum geta haft mikil áhrif á vinnandi fólk.

Réttlát umskipti er þýðing á hugtakinu Just Transition sem var fyrst notað af bandarísku verkalýðshreyfingunni á tíunda áratug síðustu aldar. Þá var verið að krefjast stuðningskerfis fyrir verkamenn sem misstu vinnuna vegna strangar umhverfisverndarlöggjafar.

Alþjóðaverkalýðshreyfingin, ITUC, gerði síðan hugtakið að sínu og nú er merking þess sú að það þurfi að hámarka áhrif loftslagsaðgerða til að ná kolefnishlutleysi en lágmarka á sama tíma byrðar sem lagðar eru á launafólk og almenning. Áhersla er lögð á sköpun góðra og grænna starfa sem eru launuð með sanngjörnum hætti, veita starfsfólki vinnumarkaðstengd réttindi og rétt til að hafa áhrif á starfsaðstæður sínar. Þess vegna leggur verkalýðshreyfingin áherslu á samstarf við atvinnurekendur og stjórnvöld til að meta áhrif nauðsynlegra loftslagsaðgerða á vinnumarkað og skattbyrði launafólks til að hægt sé að bregðast við með nauðsynlegum mótvægisaðgerðum.

Sameinuðu Þjóðirnar tóku hugtakið upp á sína arma árið 2015 með útgáfu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO, á leiðarvísi fyrir réttlát umskipti. Þetta var í aðdraganda undirritunar Parísarsamningsins síðar sama ár og réttlát umskipti eru einmitt eitt af markmiðum samningsins. Enn sem komið er hafa íslensk stjórnvöld ekki lagt áherslu á þann þátt Parísarsamningsins.

BSRB, ASÍ og BHM eru í samstarfi við önnur bandalög launafólks innan Norræna verkalýðssambandsins og Þýska alþýðusambandsins um réttlát umskipti og í mars 2021 var gefin út skýrsla með sameiginlegum tillögum. Einnig var gefin út skýrsla fyrir hvert land og fjallar sú íslenska um losun frá íslenska hagkerfinu, áhrif á vinnumarkað, stjórntæki hins opinbera í loftslagsmálum og tillögur verkalýðshreyfingarinnar um réttlát umskipti. Umfjöllun um íslensku skýrsluna og skýrsluna sjálfa má nálgast hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?