Riftun IPA samnings við FA ólögmæt

Umboðsmaður Evrópusambandsins (European Ombudsman) gagnrýnir framkvæmdastjórn ESB harðlega fyrir málsmeðferð þeirra varðandi IPA samning Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og ESB.  Samningnum var rift þegar aðildarviðræður Íslands voru stöðvaðar. Umboðsmaður hefur beint þeim tilmælum til Evrópusambandsins að það standi við samninginn enda sé framferði framkvæmdastjórnarinnar óásættanlegt og grafi undan þeim gildum sem byggja skuli á. 

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hlaut IPA styrk og gerði samning við Evrópusambandið vegna verkefnisins „Þróun raunfærnimats til að efla starfshæfni fullorðinna með litla formlega menntun“ í júní 2012. Samningurinn fól meðal annars í sér mótfjárframlag frá Fræðslusjóði. Rúmu ári eftir að vinna við verkefnið hófst, óskaði Stækkunarskrifstofa ESB eftir því að hægt yrði á vinnu við verkefnið vegna óvissu um framhald aðildarviðræðna. Í desember 2013 var einhliða uppsögn samningsins boðuð á þeim grundvelli að viðræður Íslands við Evrópusambandið hefðu verið settar á ís og þann 5. febrúar 2014 var samningnum sagt upp með tveggja mánaða fyrirvara. Fræðslumiðstöð atvinnulífsins mótmælti uppsögn samningsins á þeim forsendum að hún væri ólögmæt og ótímabær enda samningurinn tvíhliða samningur tveggja jafnrétthárra aðila sem bæri að efna af beggja hálfu.

Að fenginni ráðgjöf lögfræðinga sendi Fræðslumiðstöð atvinnulífsins kvörtun til Umboðsmanns Evrópusambandsins vegna uppsagnarinnar og í maí 2014 tilkynnti umboðsmaður að hann myndi að eigin frumkvæði taka málið upp, enda teldi hann kvörtun Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins eiga við rök að styðjast og hún varðaði orðspor og trúverðugleika ESB. Umboðsmaður sendi framkvæmdastjórninni erindi þar sem óskað var eftir rökum fyrir uppsögn samningsins.

Nú í ágúst lauk umboðsmaður umfjöllun sinni um þetta mál og hefur birti niðurstöðu sína á vefsvæði umboðsmanns 11. ágúst. Í áliti sínu setur umboðsmaður fram harða gagnrýni á  uppsögn ESB á samningnum þegar ríkisstjórn Íslands ákvað að stöðva aðildarviðræður og átelur þau vinnubrögð alvarlega,  segir gerðir framkvæmdastjórnarinnar óásættanlegar og til þess fallnar að skaða orðspor framkvæmdastjórnar ESB og Evrópusambandsins í heild. Í álitinu kemur fram að umboðsmaður telji það hagsmuni allra málsaðila að framkvæmdastjórn ESB leiðrétti óréttmætar gerðir sínar, þó seint sé.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins væntir þess að Evrópusambandið fari að tilmælum Umboðsmanns Evrópusambandsins og efni samninginn þannig að hægt verði að halda áfram því mikilvæga verkefni sem samningurinn kveður á um.

Hér má sjá úrskurðinn í heild.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?