Ríkið verður að standa við skuldbindingar sínar

 „Ástæða þessa vanda er að ríkið hefur ekki staðið við lífeyrisskuldbindingar sínar. Frá því fyrir hrun hefur ríkið ákveðið að nýta þessa fjármuni í önnur verkefni í stað þess að standa við skuldbindingar sínar gagnvart opinberu lífeyrissjóðunum líkt og ríkinu ber að gera,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, um vanda B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins er til umfjöllunar í Fréttablaðinu í dag. Þar fullyrt er að ríkið þurfi að greiða 23 til 24 milljarða árlega eftir árið 2027 ef ekkert verði að gert fyrir þann tíma.

„Heildarsamtök opinberra starfsmanna hafa ítrekað fundað með fulltrúum fjármálaráðuneytisins vegna þessa vanda og krafist þess að ríkið leggi fram greiðsluáætlun svo rétta megi þennan halla af. Með því að fresta vandanum mun hann aðeins aukast. Þess vegna verður ríkið að standa við þessar skuldbindingar sínar og hefja greiðslu sem fyrst,“ segir Elín Björg.

Undanfarin ár hafa nokkrir vinnuhópar skipaðir aðilum vinnumarkaðarins og hins opinbera verið að störfum til að finna framtíðarlausn á lífeyriskerfi landsins.

„Skilyrði þess að sú vinna geti haldið áfram og skilað okkur niðurstöðum er að ríkið standi við skuldbindingar sínar við hina opinberu lífeyrissjóði í stað þess að ýta vandanum á undan sér. Ríkið, rétt eins og aðrir launagreiðendur, verður að standa við skuldbindingar sínar gagnvart starfsfólki sínu og lífeyrisþegum og því fyrr sem ríkið hefst handa við að greiða inn á skuldbindingar sínar því betra.“


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?