Risavaxið verkefni að viðhalda stöðugleika

Forgangsraða þarf í þágu uppbyggingar í velferðar- og menntamálum segir meðal annars í ályktun formannaráðs.

Nýrrar ríkisstjórnar bíður risavaxið verkefni við að viðhalda stöðugleika á vinnumarkaði. Formannaráð BSRB, sem kom saman fyrir helgi, sendi frá sér ályktun þar sem flokkarnir sem nú vinna að myndun ríkisstjórnar eru hvattir til að beita sér fyrir auknum félagslegum stöðugleika í samfélaginu.

Það gengur ekki að einblína á efnahagslegan stöðugleika enda verður honum ekki viðhaldið ríki ekki félagslegur stöðugleiki hér á landi.

Ályktun formannaráðsins má lesa hér að neðan. Þá má benda á frekari umfjöllun um félagslegan stöðugleika á vef BSRB.


Ályktun formannaráðs BSRB um félagslegan stöðugleika

Formannaráð BSRB áréttar mikilvægi þess að þeir stjórnmálaflokkar sem mynda munu nýja ríkisstjórn beiti sér fyrir því að auka félagslegan stöðugleika í samfélaginu. Grundvöllurinn að því er réttlátt skattkerfi þar sem greitt er inn eftir efnum og tekið út eftir þörfum.

Allir verða að hafa jafnt aðgengi að almannaþjónustunni, óháð efnahag. Forgangsraða þarf í þágu uppbyggingar í velferðar- og menntamálum. Búa þarf launafólki félagslegt öryggi svo það geti eignast börn, komið þaki yfir höfuðið og mætt afleiðingunum af slysum, veikindum og atvinnumissi. Þá þarf að gera bæði öldruðum og öryrkjum kleift að lifa mannsæmandi lífi.

Nýrrar ríkisstjórnar bíða erfiðar áskoranir við að viðhalda stöðugleika á vinnumarkaði. Þar er mikilvægt að einblína ekki aðeins á efnahagslegan stöðugleika, enda verður hann ekki til án þess að félagslegur stöðugleiki sé tryggður.

Reykjavík, 24. nóvember 2017


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?