RÚV heldur borgarafund um heilbrigðismál

Heilbrigðismálin hafa verið mikið til umfjöllunar undanfarið, hvort sem það eru málefni Landspítalans, áform um einkavæðingu heilsugæslustöðva, hjúkrunarheimili eða þjónusta heilbrigðiskerfisins á landsbyggðinni. RÚV stendur fyrir borgarafundi um heilbrigðismál annað kvöld. BSRB hvetur til þess að fólk fjölmenni á fundinn.

Fundurinn verður haldinn í Háskólabíói klukkan 19:35, en húsið opnar klukkan 19:00. Sjónvarpað verður beint frá fundinum auk þess sem hann verður í beinni útsendingu á Rás 2 og á netinu á ruv.is.

Sérfróðir gestir munu svara spurningum á fundinum. Gestirnir eru:
  • Birgir Jakobsson landlæknir.
  • Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans.
  • Arna Guðmundsdóttir formaður Læknafélags Reykjavíkur.
  • Hildigunnur Svavarsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Fulltrúar stjórnmálaflokkanna munu einnig sitja fyrir svörum. Þeir verða:
  • Ásta Guðrún Helgadóttir Pírötum.
  • Árni Páll Árnason Samfylkingunni.
  • Katrín Jakobsdóttir Vinstri grænum.
  • Kristján Þór Júlíusson Sjálfstæðisflokki.
  • Óttar Proppé, Bjartri framtíð.
  • Fulltrúi frá Framsóknarflokknum.

Almenningur er hvattur til að senda spurningar til þátttakenda með tölvupósti á netfangið borgarafundur@ruv.is, eða nota myllumerkið #borgarafundur á Twitter og Facebook.

Rétt er að geta þess að BSRB standa ekki fyrir fundinum, eða hafa að honum sérstaka aðkomu. Bandalagið fagnar opinni umræðu á fundinum og vonast til þess að lífleg umræða skapist um þennan mikilvæga málaflokk.

Gegn markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustu
BSRB hefur barist fyrir því að allir hafi jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag. Með því telur bandalagið að stuðlað verði að jöfnuði fólks. BSRB leggst alfarið gegn markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustunnar og gjaldtöku sem byggir á hagnaðarsjónarmiðum.

Talsvert var fjallað um þá ákvörðun heilbrigðisráðherra að láta einkaaðilum eftir rekstur þriggja nýrra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. BSRB mótmælti þeim áformum harðlega og leggst alfarið gegn áformum um einkavæðingu af því tagi. Á sama tíma fagnaði BSRB áformum um uppbyggingu heilsugæslunnar, en áréttaði mikilvægi þess að hún sé rekin af hinu opinbera, ekki einkaaðilum.

Kynntu þér áherslur BSRB í heilbrigðismálum í stefnu BSRB.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?