Saga SLFÍ rakin í nýrri bók

Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, afhenti Elínu Björgu Jónsdóttur, formanni BSRB, nýlega bókina Sjúkraliðar á Íslandi í 50 ár – Saga Sjúkraliðafélags Íslands.

Bókin er gefin út í tilefni 50 ára afmæli Sjúkraliðafélagsins félagsins í fyrra. Þar er litið yfir farinn veg, fjallað um þær breytingar sem orðið hafa á starfi og umhverfi stéttarinnar og birtar myndir frá starfsemi félagsins á þessari hálfu öld sem það hefur verið starfrækt.

Í formála bókarinnar segir meðal annars að barátta sjúkraliða og Sjúkraliðafélags Íslands fyrir bættum kjörum, menntun og starfsréttindum hafi verið mikil. Félagið hafi mætt mikilli mótstöðu í þeirri baráttu, jafnvel frá þeim stéttum sem hafi staðið félagsmönnum nærri.

„Í dag er Sjúkraliðafélag Íslands öflugt stéttarfélag með öflugan hóp starfsfólks sem á 50 ára afmælisári félagsins lítur um öxl og sér hversu mikið hefur unnist í baráttunni undanfarin 50 ár,“ segir í niðurlagi formálans.

Bókin er til sölu á skrifstofu SLFÍ. Þá geta þeir sem þess óska fengið hana senda.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?