Samflot samþykkir nýjan samning

Samkomulag um breytingu og framlengingu á  kjarasamningi Samflots bæjarstarfsmannafélaga innan BSRB við ríkið hefur verið samþykkt í atkvæðagreiðslu félagsmanna.

Félögin sem um ræðir eru Starfsmannafélag Fjallabyggðar, Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum, Starfsmannafélag Dala- og Snæfellsnessýslu, Starfsmannafélag Vestmannaeyjabæjar og Starfsmannafélag Húsavíkur. Félögin samþykktu nýjan samning með tæplega 73% greiddra atkvæða en kosningaþátttaka var rúmlega 41%.

Samningurinn nær til félagsmanna umræddra aðildarfélaga BSRB sem starfa hjá ríkinu. Helstu atriði samningsins eru:

  • að laun hækki um 2,8% eða að lágmarki 8000. kr. fyrir dagvinnu miðað við fullt starf. Á launum sem eru lægri en 230.000 kr. á mánuði komi sérstök hækkun til viðbótar að upphæð 1.750 kr.
  • við samþykkt samningsins greiðist 14.600 kr. eingreiðsla miðað við fullt starf í febrúar 2014 en hlutfallslega m.v. starfstíma og starfshlutfall í sama mánuði þar sem það á við.
  • eingreiðsla 20.000 kr. miðað við þá sem eru í fullu starfi í febrúar 2015 greiðist þann 1. apríl 2015 en hlutfallslega m.v. starfstíma og starfshlutfall í sama mánuði.
  • persónuuppbót verður á samningstímanum 73.600 kr.
  • orlofsuppbót verður á samningstímanum 39.500 kr.
Samningurinn mun gilda frá 1. mars 2014 til 30. apríl 2015

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?