Samhljómur í áherslumálum BSRB og ASÍ

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, flutti ávarp við setningu 43. þings ASÍ.

Auka ætti enn meira samstarf BSRB og Alþýðusambands Íslands (ASÍ) á næstu árum enda mikill samhljómur í áherslumálum, kröfum um hækkun lægstu launa og styttingu vinnuvikunnar sagði Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, þegar hún ávarpaði 43. þing ASÍ í morgun.

Þar fór hún yfir það mikla samstarf sem heildarsamtökin hafa átt á síðustu árum og ítrekaði mikilvægi samstöðunnar.

„Þó að stundum sé gert mikið úr ólíkum áherslum BSRB og ASÍ er staðreyndin sú að það er miklu meira sem sameinar okkur en sundrar. Kjarninn í okkar störfum er sá sami, við berjumst fyrir bættum kjörum og réttindum launafólks í landinu. Við höfum staðið saman um þá grundvallarkröfu og það eigum við að gera áfram,“ sagði Sonja.

Sonja þakkaði Gylfa Arnbjörnssyni, fráfarandi forseta ASÍ, fyrir gott samstarf á undanförnum árum og sagðist hlakka til þess að auka enn samvinnuna með nýju forystufólki sem þingfulltrúar ASÍ munu kjósa á föstudag.

Að lokum fagnaði Sonja því að gert verði hlé á störfum þingsins svo þingfulltrúar geti tekið þátt í kvennafríi á Arnarhóli í dag. Hún sagði eitt af stóru verkefnum verkalýðshreyfingarinnar að tryggja jafnrétti á vinnumarkaði og að allir séu öruggir heima og öruggir í vinnunni.

„Eins og þið vitið ætla konur að ganga út klukkan 14:55 í dag og mæta á samstöðufund klukkan hálf fjögur á Arnarhóli. Það er frábært að sjá að þið ætlið að leggja niður störf og mæta á samstöðufundinn. Ég hlakka til að sjá ykkur öll þar,“ sagði Sonja að lokum.

 

 

Ávarp Sonju í heild sinni má lesa hér að neðan

Ráðherra, forsetar ASÍ, kæru félagar.

Til hamingju með daginn!

Takk fyrir að bjóða mér að ávarpa þing ASÍ. Það er sérstaklega ánægjulegt að þetta sé fyrsta opinbera embættisverkið eftir að ég tók við sem formaður BSRB, hér í þessum sal, síðastliðinn föstudag.

Yfirskrift þessa 43. þings ASÍ er „sterkari saman!“ og það á sannarlega vel við. Þar er vísað í samstöðuna, sem í gegnum tíðina hefur verið sterkasta vopn launafólks í baráttunni fyrir bættum kjörum.

Þó að stundum sé gert mikið úr ólíkum áherslum BSRB og ASÍ er staðreyndin sú að það er miklu meira sem sameinar okkur en sundrar. Kjarninn í okkar störfum er sá sami, við berjumst fyrir bættum kjörum og réttindum launafólks í landinu. Við höfum staðið saman um þá grundvallarkröfu og það eigum við að gera áfram.

Saman höfum við beitt okkur í samtali við stjórnvöld og atvinnurekendur til að verja velferðina og tryggja launafólki félagslegan stöðugleika.

ASÍ og BSRB stofnuðu í sameiningu Bjarg íbúðafélag sem nú reisir íbúðir víða um land fyrir tekjulægstu félaga okkar. Við erum sammála um að það þarf að gera meira og bæta stöðuna í húsnæðismálum verulega.

Við unnum saman að átaki í fæðingarorlofsmálum þar sem þrýst var á Alþingi að lengja orlofið, hækka greiðslurnar og hætta að skerða greiðslur að 300 þúsundum. Við stóðum saman að málþingi um heilbrigðismál og erum samstíga í baráttunni gegn einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu.

Við höfum einnig staðið þétt saman í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna og í því að eyða kynbundnum launamuni. Svo þétt að mér finnst stundum eins og verji meiri tíma með starfsfólki ASÍ en mínu eigin samstarfsfólki.

Skýr samhljómur

Við erum sannarlega sterkari saman og við eigum að halda áfram að nýta okkur samtakamáttinn. Í framkomnum kröfum aðildarfélaga ASÍ er lögð áhersla á að fólk geti lifað af á laununum sínum og að vinnuvikan sé stytt. Á nýafstöðnu þingi BSRB kom fram skýr vilji til að aðildarfélög okkar geri einnig kröfu um verulega hækkun lágmarkslauna og breytingu á skatt- og bótakerfum svo þær hækkanir hverfi ekki eins og hækkanir undanfarinna ára.

Á þinginu okkar kom einnig skýrt fram að stytting vinnuvikunnar eigi að vera forgangsverkefni. Við þekkjum öll streituna í samfélaginu og neikvæðar afleiðingar hennar.

Tilraunaverkefni BSRB, Reykjavíkurborgar og ríkisins sýna að stytting vinnuvikunnar auðveldar fólki að samþætta fjölskyldulíf og vinnu, stuðlar að betri líðan, minni streitu, aukinni starfsánægju og fækkun veikindadaga. Og það án þess að það hafi áhrif á afköst starfsmanna.

Við hjá BSRB vonumst eftir samstarfi um styttingu vinnuvikunnar og að árið 2019 verði ár breytinga. Breytinga sem minnka álagið og auka lífsgæði okkar félagsmanna, öllum til hagsbóta.

Fyrir hönd BSRB er það mér ánægja að þakka fráfarandi forseta ASÍ fyrir gott samstarf á liðnum árum. Ég vonast auðvitað eftir því að samstarfið eflist og styrkist enn frekar þegar ný forysta tekur við hér á þingi ASÍ.

Risavaxin verkefni bíða

Við verðum að vanda okkur þegar kemur að risavöxnum verkefnum sem bíða okkar. Umræðan er auðvitað til alls fyrst, en henni þurfa að fylgja aðgerðir. Til þess að þær aðgerðir verði markvissar verðum við að ná lendingu í umræðunni sem allir geta sætt sig við. Þannig náum við samstöðu. Með því að taka samtalið og ræða okkur niður á sameiginlega niðurstöðu.

Ég talaði um risavaxin verkefni sem bíða. Eitt af þeim verkefnum er að tryggja jafnrétti á vinnumarkaði, að allir séu öruggir heima og öruggir í vinnunni. Eins og þið vitið ætla konur að ganga út klukkan 14:55 í dag og mæta á samstöðufund klukkan hálf fjögur á Arnarhóli. Það er frábært að sjá að þið ætlið að leggja niður störf og mæta á samstöðufundinn. Ég hlakka til að sjá ykkur öll þar.

Kæru félagar

Að lokum vil ég óska ykkur velfarnaðar í störfum þingsins á næstu dögum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?