Samið um hlutverk Kjaratölfræðinefndar

Samkomulagið var undirritað í Ráðherrabústaðnum á miðvikudag.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, undirritaði í vikunni samkomulag um hlutverk og umgjörð Kjaratölfræðinefndar ásamt fulltrúum stjórnvalda og annarra aðila vinnumarkaðarins.

Á vegum nefndarinnar mun eiga sér stað samstarf heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag til undirbúnings og eftirfylgni með kjarasamningum. Nefndinni er ætlað að stuðla að því að aðilar samkomulagsins hafi sameiginlegan skilning á eðli, eiginleikum og þróun þeirra hagtalna sem mestu varða við gerð kjarasamninga.

Aðilar að nefndinni eru, auk BSRB, forsætisráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og Hagstofa Íslands.

Endurskoðun á samkomulagi um Þjóðhagsráð, vinnu við gerð fyrirhugaðrar grænbókar um framtíðarumhverfi kjarasamninga og vinnumarkaðsmála og um eftirfylgni með aðgerðum ríkisstjórnar í tengslum við gerð Lífskjarasamninga var einnig til umfjöllunar á fundinum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?