Samið verði við lögreglumenn án frekari tafa

Lögreglumenn hafa nú verið án kjarasamnings í rúmlega 15 mánuði.

Viðræður Landssambands lögreglumanna við samninganefnd ríkisins um nýjan kjarasamning hafa enn engan árangur borið og verður næsti samningafundur í kjaradeilunni ekki haldinn fyrr en þann 19. ágúst. BSRB kallar eftir því að gengið verði til kjarasamnings við lögreglumenn án frekari tafa.

Landssambandið er eina aðildarfélag BSRB sem ekki hefur náð samkomulagi við ríkið um nýjan kjarasamning, en kjarasamningur landssambandsins rann út í byrjun apríl 2019. Síðasti samningafundurinn í kjaradeilunni fór fram þann 25. júní, en hlé var gert á viðræðunum vegna sumarleyfa hjá Ríkissáttasemjara. Þó var rætt um að boðað yrði til fundar þrátt fyrir sumarleyfi hjá sáttasemjara ef einhverjar hreyfingar yrðu í átt að samkomulagi, en af því varð ekki.

„Við höfum engin viðbrögð fengið frá samninganefnd ríkisins að okkar tillögum að lausn deilunnar,“ segir Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB kallar eftir því að ríkið semji við lögreglumenn án frekari tafa. „Það er fráleit staða að lögreglumenn sitji eftir þegar samið hefur verið við aðra hópa innan BSRB. Lögreglumenn eru framlínustétt og hafa ítrekað þurft að leggja heilsu sína í hættu við sín skyldustörf í heimsfaraldrinum sem nú geisar,“ segir Sonja. „Ríkið ætti að sjá sóma sinn í því að ganga þegar í stað til kjarasamninga við lögreglumenn og tryggja þeim þar með þær kjarabætur sem aðrir hópar njóta nú þegar.“


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?