Samningseiningafundur hjá BSRB

Samningseiningar BSRB komu saman til fundar í gær til að ræða kröfugerð og helstu áherslur fyrir komandi kjarasamningsviðræður. Fulltrúar allra helstu samningseininga innan BSRB voru viðstaddir fundinn.

BSRB fer ekki með umboð til kjarasamningsgerðar fyrir hönd aðildarfélaga sinna heldur fer hvert og eitt aðildarfélag bandalagsins með samningsumboð við sína viðsemjendur.

Fram kom á fundinum að nokkuð misjafnt er hversu langt kröfugerðir einstaka félaga eru komnar. Almennt hafa kröfugerðir félaganna ekki verið lagðar fram þótt margar þeirra séu langt komnar. Talsvert var fjallað um mikilvægi kaupmáttaraukningu launa, hækkun lægstu launa umfram önnur, stöðu millitekjuhópa og gerð stuttra kjarasamninga.

Fundarmenn fjölluðu einnig um bætt vinnubrögð við kjarasamninga og þá áherslu sem BSRB hefur lengi lagt mikla áherslu á, að kjarasamningur taki við af kjarasamningi. Með því er átt við að kjarasamningar séu ekki lausir til lengri tíma líkt og allt of oft hefur komið upp á síðustu árum.

Einnig voru sameiginleg mál BSRB félaga nokkuð til umræðu á fundinum s.s. lífeyrismál, málefni vaktavinnufólks, starfsmenntamál, málefni trúnaðarmanna og orlofsmál. Ekki hefur verið ákveðið hvenær næsti samningseiningafundur BSRB verður haldinn en það skýrist á allra næstu dögum.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?