Samningseiningar BSRB hefja undirbúning kjaraviðræðna

Heiður Margrét Björnsdóttir hagfræðingur BSRB kynnir helstu efnahagsstærðir á fundi samningseininga BSRB

Samningseiningar BSRB komu saman til fundar í húsnæði BSRB í gær til að ræða helstu áherslur fyrir komandi kjarasamningsviðræður. Nokkur aðildarfélaga BSRB eru með lausa samninga á haustmánuðum en meirihluti samninga aðildarfélaga BSRB eru við ríki og sveitarfélög sem eru lausir í mars á næsta ári.

Hagfræðingar BSRB, þær Heiður Margrét Björnsdóttir og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, héldu erindi þar sem þær fóru yfir stöðuna í aðdraganda kjarasamninga, s.s. helstu efnahagsstærðir, velsæld, húsnæðismál, barnabætur, launaþróun, launahlutfall og kynbundinn launamun.

Að loknum erindum ræddi Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, um skipulag starfs samningseininganna á næstu vikum. Í síðustu kjarasamningum var samið um styttingu vinnuvikunnar og framundan tekur við mat á áhrifum þeirra breytinga. Fram kom á fundinum að það er eitt helsta atriðið sem brennur á félagsfólki aðildarfélaga svo ákveðið var að koma á fót vinnuhópi sem hefur það hlutverk að móta áherslur bandalagsins varðandi styttri vinnuviku fyrir næstu kjarasamninga.

„Þetta var góður fundur og fundarmenn voru sammála um þau málefni sem við ætlum að hefja undirbúning á. Aðildarfélögin eru á mismunandi stað í undirbúningi eftir því hvenær samningarnir eru lausir en vilji er til þess að vinna saman að þeim málum sem varða sameiginlega hagsmuni félagsfólks aðildarfélaganna, hvort sem er gagnvart viðsemjendum eða stjórnvöldum“, segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?