Samstaða – sókn til nýrra sigra!

Formaður fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Reykjavík mun, venju samkvæmt, flytja ávarp á baráttufundi á Ingólfstorgi þann 1. maí. Ávarpið er hér að neðan.

Á yfirstandandi kjörtímabili og nú á síðustu vikum, hefur almenningur fengið staðfestingu á að í þessu landi búa tvær þjóðir. Yfirstéttin, sem nýtur auðæva sinna og býr við allt annað hagkerfi,- og síðan við hin, venjulegir Íslendingar. Við sjáum hvernig stjórnvöld hafa breytt skattkerfinu til hagsbóta fyrir auðmenn; auðlegðarskatturinn var aflagður, það er búið að færa útgerðarauðvaldinu tugi milljarða í lækkuðum veiðigjöldum, ferðaþjónustan er á afsláttarskatti, skattur á erlenda auðhringa sem starfa hér á landi er skila erlendum eigendum sínum ofurhagnaði en skila engum sköttum til samfélagsins og svo má lengi telja. Kjarninn í allri skattastefnu núverandi stjórnvalda er lækkun skatta á þá sem telja sig, og ætla sér, að eiga Ísland og auðlindir landsins. Loforð stjórnvalda um að skattalækkanir og breytingar á innflutningsgjöldum myndu skila sér í lægra vöruverði, hafa ekki gengið eftir. Þess í stað stinga grósserarnir milligjöfinni í eigin vasa og neytendur, almenningur í landinu, situr eftir með sárt ennið. Það er löngu tímabært að þessum skemmdarverkum á samfélagi okkar ljúki og við vinnum til baka þjóðfélag, sem við getum stolt sagt að við eigum saman.

Leikhús fáránleikans í stjórnmálunum
Undanfarið hafa forystumenn og þingmenn núverandi stjórnvalda boðið okkur upp á leikhús fáránleikans. Það má með góðri vissu fullyrða að þjóðin hafi vonast eftir, og ætlast til, að í kjölfar hrunsins myndum við reka af okkur sundurlyndisfjandann, hreinsa burt sorphauga sérgæsku, spillingar, frænd- og vinahygli, svika og pretta. Þess í stað tækjum við upp heiðarlegt og opið samfélag jafnræðis og samstöðu, sem fámenn þjóð á hjara veraldar þarf á að halda. Einkunnarorð og heróp skemmdaverkamannanna sem kallaðir voru útrásarvíkingar, var „Ég áetta, ég máetta!“. Eru forystumenn þjóðarinnar ennþá sýktir af þessum vírus? Um leið og þeir aðskilja sig frá þjóðinni og í leit að sólríkri skattaparadís, halda þeir því fram að íslenska krónan sé besti gjaldmiðill í heimi og hún sé nægjanlega góð í almúgann. Hvað þýðir það fyrir almennt launafólk? Við búum við ónýta krónu, okurvexti og verðtryggingu. Til viðbótar þá borgum við almenningur af tekjum okkar fullan skatt og leggjum þar með okkar af mörkum við að tryggja hér Norrænt velferðarsamfélag. Við almenningur byggjum skóla og menntakerfið, við byggjum sjúkrahús og heilbrigðiskerfið, við byggjum vegi og samgöngukerfi, við byggjum öryggiskerfið og innviði velferðarsamfélagsins. Á sama tíma þá stunda ástmenn Tortólu þá íþrótt helsta, að koma auðæfum sínum undan skatti. Nú er kominn tími til að stöðva þessa vitleysu, þetta sundurlyndi, þessi skemmdarverk og fara að vinna saman.

Peningarnir eru í vasa auðmanna
Það er kominn tími til að hætta útúrsnúningum og undanbrögðum. Kröfum um að byggja hér upp öflugt velferðarkerfi hefur verið svarað með fullyrðingum um að ekki séu til peningar. Ekki nema von, þeir eru jú komnir í vasa auðmanna. Ákalli um úrbætur í húsnæðismálum hefur verið svarað með útúrsnúningum um að það séu ekki til peningar. Kröfum um úrbætur í heilbrigðiskerfinu hefur verið svarað með því að það séu ekki til peningar. Kröfum um lagfæringar í almannatryggingakerfinu og að þeir tekjulægstu verði ekki skildir eftir, er svarað með því að það séu ekki til peningar. Það eru til peningar, en þeir eru jú komnir í vasa auðmanna.

Til að stoppa upp í sífellt stækkandi götin eru álögur á sjúklinga auknar. Krabbameinssjúklingar, og aðrir sem kljást við illvíga sjúkdóma, þurfa að greiða jafnvel hundruð þúsunda fyrir meðferð sína. Við erfiða baráttu, jafnvel upp á líf og dauða, bætast fjárhagsáhyggjur sem almenningur í landinu er sammála um að ekki eigi rétt á sér. Stjórnvöld fullyrða síðan að ekki sé mögulegt að reka hér almennilegt heilbrigðiskerfi og þau eru markvisst að þróa kerfið í átt að aukinni einkavæðingu með tilheyrandi kostnaðarauka fyrir almenning. Það sýna meðal annars nýjustu hugmyndir varðandi breytingar á fyrirkomulagi og uppbyggingu heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Það á að opna nýjar heilsugæslustöðvar, sem allar eiga að vera í eigu einkaaðila. Hugmyndin er réttlætt með því að eigendum þeirra verði óheimilt að greiða sér út arð, ákvæði sem síðan verður þurrkað út úr lagabálkum og frumvörpum, þegar búið er að tryggja byggingu og rekstur á nýjum forsendum.

Mansal í þrælavinnu staðreynd
Mikilvægt er að íslenskt launafólk standi þétt saman í baráttunni fyrir jafnrétti og samstöðu. Atvinnurekendur eru vel skipulagður hagsmunahópur sem hefur það markmið að hámarka arðgreiðslur til sín og halda launum starfsmanna niðri. Í aðdraganda allra kjarasamninga byrjar skipulagður grátur þeirra um að launahækkanir munu kollkeyra atvinnulífið og þjóðfélagið. Á næsta aðalfundi fyrirtækjanna ákveða þeir síðan að greiða sér milljarða í arð. Það hefur verið grátlegt að fylgjast með alþjóðaauðvaldinu reyna að kúga starfsmenn sína í Álverinu í Straumsvík og hóta lokun fyrirtækisins ef starfsmenn falla ekki fram á hnén. Við fáum reglulega af því fréttir að verkamenn eru fluttir til landsins gegnum starfsmannaleigur og starfa hér undir lámarkslaunum, mansal í þrælavinnu er orðið staðreynd, sjálfboðaliðar eru fluttir inn til starfa sem þeir fá ekki greitt fyrir. Það er síðan dapurleg staðreynd að bæði ríkið og sveitarfélög reka láglaunastefnu, sem er til skammar. Er þetta samfélagið sem við viljum byggja? Launafólk má aldrei gleyma því að kjarabarátta er mannréttindabarátta við voldugan andstæðing. Því má aldrei gleyma í baráttu okkar fyrir betra samfélagi.

Í samfélag okkar vantar sátt. Eftir að samfélag okkar var skilið eftir í rúst í hruninu, er nauðsynlegt að almenningur taki höndum saman og ljúki þeim verkum sem kalla á okkur eftir þær hörmungar; að gera samfélag okkar heiðarlegt, réttlátt og gegnsætt. Heiðarleiki, jafnrétti, virðing og réttlæti voru einmitt gildin sem að þjóðin setti á oddinn á Þjóðfundinum 2009. Nú þarf að vinna þau gildi inn í okkar daglega líf, inn í hjartslátt þjóðarinnar og það gerum við ekki nema standa þétt saman. Við þurfum að reka samfélagslega skemmdarverkamenn af höndum okkar og við þurfum að sýna atvinnurekendum að við munum ekki þola óréttlæti og ölmusur þegar kemur að launum fyrir heiðarlega vinnu. Við verðum að reka spillta og ónothæfa þingmenn út úr sölum Alþingis og við verðum að treysta samfélagslegar undirstöður okkar; heilbrigðiskerfið, menntakerfið og íslenskt velferðarkerfi eins og það leggur sig.

Segjum nei við græðgisvæðingunni. Byggjum saman betra samfélag.

Við þurfum samstöðu og sókn til nýrra sigra.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?