Samstarf við Lúðrasveit verkalýðsins endurnýjað

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, og Rannveig Rós Ólafsdóttir, formaður Lúðrasveitar verkalýðsins, handsöluðu samkomulag um áframhaldandi samstarf.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, og Rannveig Rós Ólafsdóttir, formaður Lúðrasveitar verkalýðsins, undirrituðu í dag samkomulag um áframhaldandi samstarf BSRB og lúðrasveitarinnar.

Lúðrasveitin mun því eftir sem áður koma í Félagamiðstöðina við Grettisgötu og leika fyrir gesti og gangandi í kaffisamsæti BSRB þann 1. maí, auk þess sem sveitin verður til reiðu að spila við önnur tækifæri.

Lúðrasveit verkalýðsins á sér merka sögu, en hún var stofnuð árið 1953 og hefur því verið starfandi í á sjöunda áratug. Hún var stofnuð að undirlagi verkalýðshreyfingarinnar til að tryggja að ávallt væri hægt að leita til lúðrasveitar til að taka þátt í kröfugöngunni þann 1. maí ár hvert. Það hefur gengið eftir og er kröfugangan ár hvert leidd af kröftugum lúðrablæstri og trommuslögum Lúðrasveitar verkalýðsins.

Þeir sem vilja njóta tónlistar lúðrasveitarinnar fá til þess frábært tækifæri í næstu viku. Þann 19. nóvember klukkan 20 leiðir Lúðrasveit verkalýðsins áhorfendur í gegnum töfraheim kvikmyndatónlistarinnar í Ráðhúsi Reykjavíkur. BSRB hvetur áhugasama til að mæta, en aðgangur að tónleikunum er ókeypis. Nánari upplýsingar um tónleikana má finna hér.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?