Samstöðufundur á morgun – Ályktun SFR

Núna kl. 10 hefst samningafundur SFR, SLFÍ og LL með samninganefnd ríkisins. Verði enginn árangur af þeim fundi hefst verkfall SFR og SLFÍ á miðnætti í kvöld.

Þá hefur verið boðað til samstöðufundar á Austurvelli á morgun fimmtudag kl. 10:00 þar sem félagsmenn BSRB-félaganna munu krefjast þess að fá sömu kjarabætur og aðrir ríkisstarfsmenn hafa þegar fengið.

Á fundi sínum í gær samþykkti stjórn SFR svo eftirfarandi ályktun þar sem stjórnvöld eru hvött til að skera á þann hnút sem er í deilunni:

Stjórn SFR lýsir verulegum áhyggjum yfir því ófremdarástandi sem nú ríkir vegna aðgerðarleysis stjórnvalda í kjaradeilu félagsmanna SFR stéttarfélags, Sjúkraliðafélags Íslands og Landsambands lögreglumanna við fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins.

Krafa stéttarfélaganna er skýr og réttlát!

Við krefjumst sambærilegra kjarabóta og aðrir ríkisstarfsmenn!

Verkfall þúsunda ríkisstarfsmanna skellur á næstkomandi fimmtudag. Við skorum á stjórnvöld að skera á hnútinn og semja við okkur um sambærilegar launahækkanir og ríkið hefur samið um í síðustu samningum og gerðardómur dæmdi öðrum starfsmönnum ríkisins!


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?