Samtaka í baráttu fyrir félagslegu réttlæti

Áherslan á félagslegt réttlæti er eitt af því sem sameinar BSRB og Alþýðusamband Ísland í baráttu fyrir betra samfélagi. Mikilvægt er að heildarsamtök launafólks standi saman og styðji við hvort annað í baráttunni, sagði Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, í ávarpi sínu við setningu 42. þings ASÍ í morgun.

„Stundum er eins og við í forystu BSRB og ASÍ tölum í sitthvora áttina í mikilvægum málum, en þegar nánar er að gáð eru miklu fleiri atriði sem sameina okkur en sundra,“ sagði Elín Björg. „Við erum sammála um mikilvægi þess að berjast fyrir kjörum og réttindum launafólks í landinu. Þar eigum við að standa saman og styðja við bakið hvort á öðru í baráttunni.“

Elín Björg sagði BSRB og ASÍ eiga það sameiginlegt að vilja viðhalda stöðugleika í efnahagslífinu, þó fleiri þurfi að koma að því verkefni. Það sé sameiginlegt baráttumál að tryggja aukinn kaupmátt launafólks og félagslegan stöðugleika.

Hún sagði það vonbrigði að endanleg útfærsla frumvarps um breytingu á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna hafi ekki verið í anda samkomulags sem heildarsamtök opinberra starfsmanna gerðu við ríki og sveitarfélög í september.

„Það eru flestir sammála um mikilvægi þess að vera með samræmt lífeyriskerfi. Á sama hátt hljóta flestir að vera sammála um að ekki eigi að vera launamunur milli markaða né heldur að skerða eigi áunnin réttindi launafólks,“ sagði Elín Björg.

„Við verðum áfram að vanda okkur þegar við vinnum saman að þeim risastóru verkefnum sem bíða. Þar skiptir umræðuhefðin miklu máli. Einungis þannig getum við náð lendingu sem allir geta sætt sig við. Þannig virkar samstaðan.“

Ávarp Elínar Bjargar í heild sinni er hér að neðan.

Forseti ASÍ, ráðherrar, ágætu félagar.

Samstaða er yfirskrift þessa fertugasta og annars þings ASÍ og það á vel við. Hún er mikilvægt afl fyrir allt launafólk og við eigum þar samleið BSRB og ASÍ.

Stundum er eins og við í forystu BSRB og ASÍ tölum í sitthvora áttina í mikilvægum málum, en þegar nánar er að gáð eru miklu fleiri atriði sem sameina okkur en sundra. Við erum sammála um mikilvægi þess að berjast fyrir kjörum og réttindum launafólks í landinu. Þar eigum við að standa saman og styðja við bakið hvort á öðru í baráttunni.

Mikilvægi heildarsamtaka á borð við ASÍ og BSRB eru augljós í því að móta sýn um hvernig samfélag við viljum byggja. En það er ekki nóg að hafa markmiðin á hreinu, við verðum líka að vinna sameiginlega að því að komast á leiðarenda.

Við erum sammála um ákveðna framtíðarsýn. Við vinnum saman að því að viðhalda stöðugleika í íslensku efnahagslífi, þó það sé auðvitað ekki verkalýðshreyfingarinnar einnar að sinna því verkefni. Það er sameiginlegt baráttumál að tryggja aukinn kaupmátt íslensks launafólks og félagslegan stöðugleika.

En það er ekki síður áherslan á félagslegt réttlæti sem sameinar okkur í baráttunni. Við sameinuðumst á Austurvelli á mánudaginn var þar sem við börðumst fyrir jafnrétt. En dæmin eru fleiri.

  • BSRB og ASÍ hafa til að mynda stofnað íbúðafélag sem ætlað er að bæta stöðu þeirra tekjulægri á húsaleigumarkaði. 
  • Við eigum marga samstarfsfleti þegar kemur að menntamálum, til dæmis Félagsmálaskóla alþýðu og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins.
  • Við höfum undanfarið unnið saman, að átaki til að byggja upp fæðingarorlofskerfið með átakinu Betra fæðingarorlof, og tekist í sameiningu að gera það mál að einu af kosningamálunum.
  • Við höfum verið sameinuð í baráttunni gegn áformum um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu þar sem okkur hefur tekist að koma okkar sjónarmiðum skýrt á framfæri.
  • Og við höfum verið saman í umræðu um að bæta íslenska kjarasamningsmódelið á vettvangi Salek-hópsins.

Það er sannarlega margt sem sameinar ASÍ og BSRB í baráttunni. Það á þó ekki við um öll mál. Undanfarin ár hafa bandalög opinberra starfsmanna verið í viðræðum við ríki og sveitarfélög um breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna þannig að allt launafólk búi við samskonar lífeyriskerfi. Þar höfum við gætt að því að réttindi sem félagsmenn hafa áunnið sér verði ekki skert.

Þessi vinna skilaði sér í samkomulagi sem bandalög opinberra starfsmanna og fulltrúar ríkis og sveitarfélaga undirrituðu um miðjan september. Í kjölfarið lagði fjármálaráðherra fram frumvarp sem ætlað var að fanga efni samkomulagsins og koma því í lög.

Það urðu okkur mikil vonbrigði að sjá endanlega útfærslu frumvarpsins þar sem ljóst var að það endurspeglaði ekki það samkomulag sem við undirrituðum. En verkefnið fer ekki frá okkur.

Það eru flestir sammála um mikilvægi þess að vera með samræmt lífeyriskerfi. Á sama hátt hljóta flestir að vera sammála um að ekki eigi að vera launamunur milli markaða né heldur að skerða eigi áunnin réttindi launafólks.

Við verðum áfram að vanda okkur þegar við vinnum saman að þeim risastóru verkefnum sem bíða. Þar skiptir umræðuhefðin miklu máli. Einungis þannig getum við náð lendingu sem allir geta sætt sig við. Þannig virkar samstaðan.

Að lokum vil ég óska ykkur velfarnaðar í störfum þingsins.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?